Réttur - 01.01.1955, Qupperneq 21
RÉTTUR
21
Þetta ansvítans verkfall ætlar engan enda að taka og
verkfallsmennirnir beita allskonar rangindum og það er
ekki orðið verandi heima, alltaf einhverjir kallar hjá pabba
og þeir kjafta og skammast en skilja ekki neitt hvað þeir
eru að gera með þessu vitlausa verkfalli sínu. Þeir geta
ekki sett sig inn í það sem er að gerast í heiminum, en
Baddi hefur sagt mér allt um það, hann er svo gáfaður og
hefur svo fín sambönd á Vellinum, ég held meira að segja
að hann hafi talað við amrískan korpóral, eða hann var
að minnsta kosti agalega hátt settur, og hann sagði honum
allt eins og var (í trúnaði auðvitað). Ameríka er að frelsa
okkur frá kommúnistum. Ef herinn væri ekki hér — je
minn, við mundum öll verða gerð að þrælum, hugsaðu þér.
En Ameríka er free country og þar eru aldrei verkföll. Ef
til vill, segir Baddi, flytjum við þangað þegar við erum
gift — oh gee, mér hefur alltaf langað þangað, það er svo
stórt og frjálst og þar getur maður orðið ríkur á stuttum
tíma. Það varð heldur ekkert úr því að þeir færu í verkfall
á Vellinum — og við í mjólkurbúðunum förum ekki heldur,
minnsta kosti ekki ég! Baddi segir það mundi hafa verið
hreint brjálæði ef þeir mundu hafa farið í það á Vellinum.
Þeir mundu kannski hafa verið reknir og misst þessa góðu
vinnu. En nú haf a þeir vinnu meðan hinir standa í verkf alli,
og ef kaupið mun verða hækkað eftir verkfallið, þá fá þeir
líka hækkun, þó þeir hafi ekki verið með. Maður verður að
þekkja sjansana — það er allt undir því komið. Baddi var
búinn að fígúra þetta allt út löngu á undan hinum og hann
ætlaði aldrei í verkfall, hann er svo smart. Hugsaðu þér, nú
fær hann peninga á hverjum degi og við getum gift okkur
bráðum, en ef hann mundi hafa farið í verkfall — ja pabbi
segist vera búinn að tapa mörg þúsund krónum á því.
Ó Ann, þú veizt ekki hvað er hræðilegt hér heima, varla
alminilegur matur og pabbi er eins og rekinn upp í hrúts-
horn þegar Baddi er að koma heim af Vellinum. Og hann
kallaði hann verklýðssvikara Ann-a, það er voðalegt. En
Baddi er svo indæll, hann reiðist ekki einu sinni við pabba.