Réttur - 01.01.1955, Blaðsíða 50
50
RÉTTUR
sem er aðeins til sem þáttur hlutveruleikans, hafði þannig verið
slitin úr tengslum og gerð að sjálfstæðum veruleika utan við
heim hlutanna.
Það er nokkuð í stíl við þetta, þegar sumir nútíma-eðlisfræð-
ingar hafa haldið því fram, að efnið væri horfið, veruleikinn
væri talnahlutföll, jöfnur — og sönnun þess að höfundur hans
væri mikill stærðfræðingur. Þannig hafa menn reynt að losna við
efnið með því að sértaka einstakar eigindir þess, slíta þær úr
tengslum og gera að sjálfstæðri verund. En eigindir eiga sér enga
sjálfstæða tilvist, þær eru eigindir ákveðins hlutveruleika. Menn
hafa t. d. reynt að setja hreyfingu og orku í stað efnisins. Hreyf-
ingin er, eins og Engels orðaði það, tilveruháttur efnisins, en hreyf-
ingin í sjálfu sér — út af fyrir sig — er lokleysa. Hreyfing í algerðu
tómi er óhugsandi; það hlýtur jafnan að vera eitthvað, sem
hreyfist. Líku máli gegnir um orkuna (sbr. t. d. ’hina svonefndu
orkuhyggju Ostwalds), svo sem höfundur víkur að í kaflanum
„Efni og orka”. Orkan er eigind, hvort sem vér skilgreinum
hana sem hæfileika til að vinna starf eða á annan veg. Það er
orka einhvers. Orkan er í órjúfandi tengslum við efni og efnis-
magn, og höfundur bendir réttilega á, að hin alkunna setning
um að efni breytist í orku sé villandi, efniseind eða kerfi, sem
gefur frá sér orku, missir jafnframt efnismagn eða massa að
sama skapi; og kerfi, sem tekur við orku, eykur massa sinn,
sem því svarar. Það sýnist því fjarri lagi, að láta orkuhugtuk
eðlisfræðinnar leysa efnishugtakið af hólmi, en hitt eðlilegast
og reyndar sjálfsagt, eins og höfundur víkur að, að víkka efnis-
hugtakið svo, að það taki jafnframt yfir önnur fyrirbæri efnis-
heimsins, svo sem ljós og rafmagn o. s. frv.
Vísindi nútímans hafa oft orðið fyrir þeirri raun, að fram-
vinda þeirra og þróun hafa verið notaðar gegn þeim. Menn hafa
ályktað sem svo: heimsmynd vísindanna frá í gær er orðin úrelt
og gengin úr gildi, sennilega verður heimsmynd sú, er gildir í dag,
úr sögunni á morgun; og hverju er þá að treysta? Þeir, sem svo
hugsa, gera sér ekki grein fyrir sambandi hins afstæða og algilda
eða þekkingarferli mannkynsins í heild. Sérhvert vísindalegt
kenningakerfi verður jafnan ófullkomið og afstætt, en með hverri