Andvari - 01.01.2003, Blaðsíða 99
andvari
„HIÐ FAGRA, GÓÐA OG SANNA ER HITT'
97
Meiri fóm gat hann tæpast fært. Páll Valsson slær á svipaða strengi í íslenskri
bókmenntasögu III sextíu árum síðar:
Með inngöngu Tómasar Sæmundssonar varð nytsemiskrafan trúlega meira áberandi í
Fjölni en ella hefði orðið og freistandi er að álykta að framlag hans hafi riðið baggamun-
inn í því að fella saman upplýsingu og rómantík í vitund íslendinga, svo sem fram
kemur í innganginum, þar sem kröfur um nytsemi eru settar fram í sömu andrá og brýnt
er fyrir mönnum gildi hinnar hreinu fegurðar. (298)
Þegar að því er gætt að Tómas Sæmundsson átti alls enga hlutdeild í áður-
nefndu boðsbréfi þar sem sérstök áhersla var lögð á fróðleik og nytsama
dægrastyttingu en bar sannarlega mesta ábyrgð á efnislegu inntaki aðfaraorða
Fjölnis þarfnast þessi söguskoðun nokkurs rökstuðnings — sem þó hefur
aevinlega skort. Sé komið að viðfangsefninu án fyrirfram gefinnar sannfær-
ingar um það hvemig málum hafi verið háttað virðist satt best að segja liggja
beinast við að líta á Tómas sem boðbera nýjunganna. Það er fyrst eftir að
hann er orðinn einn af ritstjórum tímaritsins að það verður eiginlegur vett-
vangur fagurfræðilegra sjónarmiða, og það sem meira er, þau sjónarmið sem
Fjölnir er þekktastur fyrir eru einnig vel kunn úr öðrum skrifum hans en lítt
áberandi í skrifum félaga hans. Með því að benda á þetta er þó alls ekki verið
að draga fjöður yfir hagsýni Tómasar, ákafa umbótaviðleitni hans og löngun
til þess að mennta og upplýsa landa sína, né heldur gefið í skyn að þeir Brynj-
ólfur, Jónas og Konráð hafi verið illa að sér eða sinnulausir um heimspekileg
°g fagurfræðileg efni. En eins og Aðalgeir Kristjánsson hefur bent á var
óþarfi að brýna nytsemishugsjón þeirra.is Hún var ef nokkuð er meira áber-
andi í boðsbréfinu en í sjálfu tímaritinu.
Fleira í almennri skoðun fræðimanna á fagurfræði Fjölnis vekur vissa tor-
tryggni. Þegar að er gáð virðist t.d. engan veginn sjálfgefið að líta á stefnu-
skrá Fjölnis sem einhvers konar heimagerðan íslenskan hræring upplýsingar
°g rómantíkur, mótaðan af átökum og málamiðlun milli þeirra ólíku manna
sem stóðu að ritinu og jafnvel sérstökum aðstæðum hér á landi. Öllu nær-
tækara er að leita annarra skýringa, þ.e. túlka hana — og raunar fjölmörg
önnur ummæli Fjölnismanna um list og fegurð — með tilliti til þeirra viðhorfa
sem voru efst á baugi í evrópskri hugmynda- og fagurfræði á fyrstu áratugum
19. aldar, ekki síst danskra og þýskra. Hér sem víðar í samstarfi þeirra félaga
leikur Tómas Sæmundsson aðalhlutverkið.