Andvari - 01.01.2003, Blaðsíða 12
10
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARi
Kveld. Hann leit þar yfir menningarsöguna og sá að vísu að andleg afrek
voru ekki unnin meiri í hans tíð en á fyrri öldum. En samfélagið hafði samt
batnað, réttur og möguleikar hvers manns til að njóta ávaxta andans voru nú
meiri en fyrr, „menningin út á við eykst“, sagði hann. Það var sú framtíð-
arsýn sem Stephan G. gladdist við, samfélagsleg hugsjón hans. En áður en að
þeirri niðurstöðu kom hafði skáldið skyggnst yfir sviðið, útburðir mannlífs-
ins sóttu á hugann:
Og þá sé ég opnast það eymdanna djúp,
þar erfiðið liggur á knjám,
en iðjulaust fjársafn á féleysi elst
sem fúinn í lifandi trjám,
en hugstola mannfjöldans vitund og vild
er villt um og stjómað af fám.
Oft koma þessi orð skáldsins í huga manns. Hér á Vesturlöndum horfum við
að vísu ekki ofan í það „eymdanna djúp“ sem skáldið sá opnast fyrir sér í lok
nítjándu aldar, þótt til séu þeir þjóðfélagshópar sem mjög hafa orðið afskiptir
þegar þjóðarauðnum er skipt. En lýðræðið er þrátt fyrir allt ennþá virkt í
okkar heimshluta. Almenningur lætur sig jafnvel hafa það að neita þeim kosti
sem allur þorri forustumanna í stjómmálum og efnahagslífi telur fólki fyrir
bestu að taka. Það gerðist nú í haust þegar Svíar höfnuðu evrunni, vildu ekki
afsala sér valdi þjóðarinnar til að ráða sínum efnahagsmálum. Slíkar fréttir
auka manni bjartsýni. En hvað um þriðja heiminn sem Vesturlönd arðrændu
og byggðu auð sinn á? Lítum á margnefnda frelsun íröksku þjóðarinnar sem
nú stendur yfir, stríðsrekstur Bandaríkjamanna og Breta í Irak, sem er að
verða stjómvöldum í þessum ríkjum fjötur um fót og þeim gengur sífellt verr
að réttlæta. - Þeir eru víst sem fyrr næsta fáir að tiltölu sem villa um og
stjóma vitund og vild hins hugstola mannfjölda. Kannski eru það áróðurs-
menn og þjónar stórfyrirtækja og peningastofnana. Kannski þeir sem hafa
hag af því að senda ungmenni út í lífið með skuldasnöru um hálsinn af því
að þeim hefur verið talin trú um að hamingjan sé fólgin í dýrum tækjum,
munaði, „rosalegri neyslu“. Að hún sé fólgin í frelsi sem auðveldlega snýst
upp í ánauð þegar fólk einu sinni hefur verið fangað í snöruna? Það væri ekki
úr vegi að hugleiða þetta og spyma við fótum.
Gunnar Stefánsson