Andvari - 01.01.2003, Blaðsíða 82
80
SIGURÐUR PÉTURSSON
ANDVARI
Eftir að Hannibal hætti afskiptum af stjómmálum árið 1974 dvaldi
hann löngum á bújörð sinni í Selárdal, en hann og Sólveig áttu einnig
notalegt skjól í íbúð sinni við Bogahlíð í Reykjavík. Hannibal naut
hrikalegrar náttúrunnar í Selárdal, þar sem fjöllin gnæfa yfir og lýsa
harðneskju og þrautseigju liðinna kynslóða sem héldu um ár og stóðu
við orf. Æðaslátt þessa fólks fann Hannibal í sjálfum sér hvert sem
hann fór. Hann vonaði að þróunina mætti stöðva; að byggðin héldist.
Því flutti hann í sveit sem ekki var tengd rafveitukerfinu, þar sem ekki
sást á sjónvarp og ekki var í sómasamlegu vegasambandi. En vonin
brást.
Hannibal sinnti nokkuð skriftum eftir að hann hætti opinberum
störfum. Hann sat í útgáfunefnd Arbókar Barðastrandarsýslu frá 1968
og skrifaði greinar í ritið um fom höfuðból, bændur, presta og athafna-
menn sem byggðu þessa sveit sem hann hafði ungur tekið ástfóstri við.
Hann lést 1. september 1991, áttatíu og átta ára að aldri.
í Selárdal sat fyrr á tíð lærðasti maður sautjándu aldar, séra Páll
Bjömsson. Sá hinn sami og ofsótti snauðar manneskjur fyrir galdur og
lét brenna á báli vegna ásakana um misgjörðir. Jarlinn í Selárdal tutt-
ugustu aldar lét ekki brenna fólk eða niðurlægja fyrir trúarkreddur eða
skoðanaöfgar. Baráttumál hans, mótuð á ungdómsárum, var að hver
karl og kona, verkamaður, sjómaður, bóndi eða menntamaður gæti
lifað lífinu af reisn. Að fólk gæti risið upp úr striti hvunndagsins og
notið menntunar, frítíma og frelsis til að þroska hæfileika sína. Ekki
bara fáir útvaldir, heldur allir. Það var manngildishugsjón jafnaðar-
mannsins.
Hannibal, nafnið sem þekkt er úr sögu Rómaveldis. Leiðtogi Kar-
þagómanna sem réðst gegn ofurefli Rómverja. Herforinginn sem tókst
hið ómögulega, að brjótast yfir Alpana með herflokk sinn og koma
óvininum í opna skjöldu. Það minnir á nafna hans á Islandi. Baráttu-
manninn, kempuna, ræðuskörunginn og verkalýðsleiðtogann Hanni-
bal. Jafnaðarmanninn að vestan.