Andvari - 01.01.2003, Blaðsíða 102
100
ÞÓRIR ÓSKARSSON
ANDVARI
og skáldskap. Þeim væri einnig frjálst að búa til nýja viðburði og skapa innra
líf sögupersóna sem til nokkurs væri að þekkja. Hér eins og í dómi Tómasar
um Schiller má augljóslega greina hugmyndimar um hið fagra, sanna og
góða.
Þetta þýðir þó alls ekki að Fjölnismenn hafi verið sinnulausir um ytra form
skáldskapar. Þeir skipa sér þvert á móti í flokk fjölmargra samtímamanna
sinna, þ. á m. Kants og Sibbems, sem töldu að listamenn yrðu að hafa þekk-
ingu og hæfileika til að vinna úr þeim efnivið sem andinn blési þeim í brjóst
og fella hann í viðeigandi formgerð. ímyndunaraflið þyrfti að haldast í
hendur við skilning og tækni. í Ferðabók sinni fullyrðir Tómas Sæmundsson
því ekki einungis að skáldskapargáfan sé „sannkölluð himinsins dóttir“ (335)
heldur leggur einnig ríka áherslu á formræn fegurðarsjónarmið, jafnvel á
kostnað hagnýtra hugmynda. Gott dæmi um slíkt er umræða hans um það
hvemig beri að meta störf manna og verk almennt, þar með talin listaverk:
„Sé hin útvortis lögun ekki samkvæm fegurðarinnar kröfum, getur maður ei
verið ánægður, jafnvel með hið nytsamligasta, hið bezta verk“ skrifar hann
(331). Á öðrum stað víkur hann að tengslum ímyndunarafls og formfágunar
og segir:
Þó nú að snilldin að því leyti sem hún er afsprengi hins skapandi ímyndunarkraftar sé
af náttúrunni gefin og geti ekki lærzt, má þó bæði niðurþagga og upplífga þessa fegurð-
arinnar gáfu, má hennar afkvæmi, er hún skal ífærast útvortis búningi, reifa margvísliga,
svo eitt geti betur farið en annað. Þess vegna má snilldarmaðurinn aldrei slá slöku við
að gaumgæfa snilldarinnar verk. Hann má ekki vera ókunnur þeim reglum sem almennt
viðteknar eru fyrir því falliga eður voga sér nokkuð sem þeim er mótstríðandi. (337)
Þjálfun listamannsins skiptir því einnig verulegu máli fyrir hina endanlegu
útkomu, ásamt þekkingu þeirra á því sem almennt er viðurkennt fagurt, þ.e.
því sem Kant nefndi „sensus communis“ (§40). Vegna þess eru almennir feg-
urðardómar mögulegir. Að tæknilegum atriðum víkur Jónas Hallgrímsson
einnig í ritgerð sinni „Um Rímur af Tistrani og Indíönu“ þegar hann fullyrðir
að eitt helsta verkefni skálda sé „að koma sem beztri skjipun á efnið, og gjeta
síðan leítt það í ljós í fagurlegri og algjörðri mind“ (Fjölnir 1837: 22). Ann-
ars staðar ræða þeir Fjölnismenn um fagurfræðilega dóma íslendinga og full-
yrða að séu þeir mjög ólíkir dómum annarra þjóða veki það grun um „að
vorum smekk og uppfræðingu sje ábótavant“ (Fjölnir 1838: 8). Fegurðar-
dómar hvíli með öðrum orðum á almennri reynslu og þekkingu.
Þær hugmyndir sem hér hafa verið raktar gengu að mörgu leyti þvert á við-
horf íslenskra skálda og lærdómsmanna fyrri alda sem töldu gjaman að skáld
ættu fyrst og fremst að hafa áhrif á lesendur sína, fræða þá og sannfæra um
þau sjónarmið sem þau sjálf aðhylltust. Skáldskapurinn væri þannig hlið-
stæða mælskufræðinnar eða jafnvel ein af greinum hennar. Viðhorf Tómasar