Andvari - 01.01.1924, Side 89
Andvari
Háskólinn
83
hærri laun en ráðherra og tvöföld laun við prófessor,
sem varið hefur 16—18 árum til undirbúnings starfi
sínu og það borgar læknum jafnhá laun kennurum, þó
að kennarinn vinni alt sitt starf fyrir launin, en læknir-
inn snúi sér ekki við nema fyrir borgun. Meðan a. m.
k. 4—5 ágætar stöður eru til erlendis fyrir íslenzka
fræðimenn (í Danmörku, Noregi og Ameríku), höldum
vér hér aldrei þeim mönnum, sem nokkuð kveður að í
þessari grein, nema vér þorum að launa þeim svo, að
þeir geti gefið sig alla við vísindum sínum án þess að
bresta hið nauðsynlegasta.
En hitt er satt — að háskóli vor stendur að sumu
leyti afarvel að vígi í íslenzkum fræðum. lslendingar,
sem nema þau fræði við aðra háskóla, hafa kenslunnar
lítil not, af því að hún er miðuð við útlendinga, verða
að læra margt, sem þeir kæra sig ekki um síðar (t. d.
forndönsku við Hafnarháskóla), en geta tekið próf alls
ókunnir síðari alda sögu og bókmentum. Hér eiga þeir
kost á beinni braut og geta verið lengra komnir þegar
þeir taka próf. Fyrir útlendinga, sem leggja stund á
norrænu, getur eins vetrar dvöl hér í Reykjavík orðið
notadrýgri en 2—3 vetra nám við annan háskóla, því
að þeir læra málið sífelt og án þess að vita af. — Auk
þess bíður þessa háskóla starf, sem ekki verður annars
unnið. Frá honum ætti að berast lifandi skilningur á
íslenzkum fornritum, því að hér og hvergi annarsstaðar
eru þau skilin af alþýðu manna og þáttur í lífi hennar.
Undir eins og Reykjavík verður byggileg vegna hús-
næðiseklu munu streyma hingað erlendir stúdentar. Þeir
eiga að bera héðan þekkingu og ást á landi og lýð,
og getur það orðið oss giftudrjúgt í viðskiftum vorum við
aðrar þjóðir. En mest er þó hlutverk háskólans inn á
við. Vísindastarfsemi í íslenzkum fræðum er undirstaða