Uppeldi og menntun - 01.01.1997, Blaðsíða 103
BÖRKUR HANSEN, ÓLAFUR H. JÓHANNSSON, STEINUNN HELGA LÁRUSDÓTTIR
an málaflokk varðar. Ekkert marktækt samband var á milli þessa viðfangsefnis og
bakgrunnsbreytnanna.
Fræðsluskrifstofa - ráðuneyti
Neðst í forgangsröð verkefna lentu samskiptin við fræðsluskrifstofu og ráðuneyti.
Hvergi komu fram marktæk tengsl milli þessa þáttar og annarra. Talsverður munur
kom þó fram í svörum eftir fræðsluumdæmum. Þeir stjórnendur sem settu þetta
viðfangsefni neðst á listann yfir ákjósanleg viðfangsefni voru hlutfallslega flestir á
Vesturlandi en hlutfallslega fæstir á Vestfjörðum.
ERFIÐ VIÐFANGSEFNI EÐA ÁNÆGJULEG
í Töflu 2 kemur fram hvernig skólastjórar röðuðu nokkrum helstu viðfangsefnum
eftir því hvort þau valda þeim erfiðleikum eða veita þeim ánægju í starfi.
Viðfangsefni sem valda erfiðleikum
Eins og fram kemur í Töflu 2 lendir hegðun nemenda efst í flokki viðfangsefna sem
mestum erfiðleikum valda í starfi. í öðru sæti er starfsfólk og í þriðja sæti er áætl-
anagerð. Minnstum erfiðleikum valda hins vegar málefni nemenda og skólahverfið
er næstneðst í röðinni. Þegar hugað er að tengslum erfiðleikaþáttarins við bak-
grunnsbreyturnar kemur eftirfarandi í ljós.
Hegðun nemenda
Af töflunni má ráða að stjórnendur telja að hegðun nemenda valdi sér mestum
erfiðleikum í starfi. Marktækt samband er á milli þeirra erfiðleika sem hegðun
nemenda veldur og stærðar skóla og reyndist það vera eina marktæka sambandið
við bakgrunnsbreyturnar. Eftir því sem skólarnir verða fjölmennari fjölgar þeim
skólastjórum hlutfallslega sem telja að hegðun nemenda valdi þeim mestum erfið-
leikum í starfi.
Þótt ekki sé um að ræða marktækan mun milli fræðsluumdæma þá víkja svör
skólastjóra í Reykjavík nokkuð frá svörum skólastjóra í öðrum fræðsluumdæmum,
því í Reykjavík eru hlutfallslega flestir sem setja hegðun nemenda í fyrsta sæti yfir
erfið viðfangsefni. Reykjanes fylgir fast á eftir, en í öðrum fræðsluumdæmum setja
skólastjórar hegðun nemenda ekki jafn eindregið í fyrsta sæti.
Starfsfólk
Starfsfólk kom næst þeirra viðfangsefna sem valda skólastjórum erfiðleikum í starfi.
Nokkur munur kom fram í svörum skólastjóra eftir aldri, reynslu, stærð skóla, aldri
skóla og fræðsluumdæmum, en hvergi var um marktækan mun að ræða. Þeir
skólastjórar sem helst setja starfsfólk í annað sæti yfir viðfangsefni sem valda þeim
erfiðleikum í starfi eru á milli þrítugs og fertugs, með 11-15 ára starfsreynslu sem
skólastjórar, og þeir stjórna skólum með 50-100 nemendur. Vestfirðir skera sig
nokkuð úr öðrum fræðsluumdæmum en þar eru hlutfallslega flestir skólastjórar
sem setja starfsfólk í annað sæti.
101