Uppeldi og menntun - 01.01.1997, Blaðsíða 17
RANNVEIG A. JÓHANNSDÓTTIR
einskorðaðist ekki við móðurmál. Erfitt reyndist því að greina móðurmálið frá
almennu uppeldisstarfi þar sem þetta tvennt tvinnast saman í öllu því sem gert er.3
Umfjöllunin einskorðast því ekki við móðurmálið. Afdráttarlaus afstaða kom fram í
gögnunum til samstarfs milli leikskóla og grunnskóla og verður gerð grein fyrir
henni í lokin.
Fyrst verður sagt frá niðurstöðum úr leikskólunum og síðan grunnskólunum.
Fjallað verður um hvort skólastigið sameiginlega nema ef niðurstöður eru ólíkar í
skólunum þá verður þess sérstaklega getið. Gögnin eru viðamikil. Hér verða því
dregin saman aðalatriði hverrar rannsóknarspurningar og eru beinar tilvitnanir í
rannsóknargögn takmarkaðar (sjá nánar Rannveigu A. Jóhannsdóttur 1996, 4.
kafla).
Þjálfun móðurmáls í leikskóla
Reifað verður hvernig móðurmál er þjálfað og hvaða þættir málsins koma einkum
við sögu. Miðað er við frumþætti móðurmáls, tal, hlustun, lestur og ritun.
Talmál - hlustun
í ljós kom að talmálsþjálfun var mest áberandi í leikskólunum. Málnotkun barnanna
var við fjölbreyttar aðstæður sem samtímis reyndi á marga eiginleika málsins, s.s.
málfræði (t.d. beygingar orða, eintala, fleirtala), orðaforða, merkingu orða og hug-
taka, að byggja upp atburðarás í frásögn og að hlusta. Þessir þættir komu daglega
fram í meira eða minna mæli í samræðum við börnin, við máltíðir og önnur störf.
Einnig í sérstakri málþjálfun sem í boði var í leikskóla 1 og þegar spilað var bingó
eða á spil og þegar sögur voru lesnar fyrir börnin.
Ég myndi segja að þjálfun móðurmálsins væri að auka málskilning og tjáningu
með ólíkum hætti og þetta er það sem kemur inn í allt starf... (Leikskólastjóri 1)
- ...að gefa sér tíma til að hlusta á það sem þau segja. Fylgjast með þessum frétta-
flutningi sem alltaf er ígangi ... ef við notum gott mál og nefnum alla hluti sem
þau eru að umgangast þá hlýtur það að skila einhverju ... það er mikið atriði að við
séum meðvituð um hvernig við notum málið. (Leikskólakennari 1)
Talmál var markvisst æft undir stjórn leikskólakennarans. Farið var í ýmsa málörv-
unarleiki, farið saman með vísur og þulur, sungið ásamt því að börnin sögðu sjálf
frá.
Þau fá tækifæri til að segja frá reynslu sinni. Ef við vitum að það hafi verið eitthvað
sérstakt þá hvetjum við þau mjög mikið til að segja frá því og stundum höfum við
það markvisst einu sinni í viku. (Leikskólastjóri 2)
Talmálið þjálfaðist í margs konar skipulagðri starfsemi þar sem börnin voru í hóp-
um með fullorðnum. Þessi háttur studdi fjölbreytta málþjálfun og stuðlaði með ein-
um eða öðrum hætti að meðvitaðri málkennd barnanna, að þau notuðu málið sem
3 Vísað er í íslenska orðabók Máls og menningar frá 1992. Þar kemur fram að með uppeldi er átt við aðferðir og
venjur f uppfóstran bama og unglinga. Uppeldisfræði á við fræði um uppeldi og menntun sem er kennslufræði
eða „pedagogy" (skv. Orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði frá 1986). Uppeldisfræði er veigamikill þáttur í námi
leikskólakennara og grunnskólakennara.
15