Uppeldi og menntun - 01.01.1997, Blaðsíða 61
DÓRA S. BJARNASON
áratugnum, frá því að 1986 sögðust 20% svarenda ánægðir að þessu leyti í það að
hlutfall ánægðra hafði vaxið í 36% allra svarenda 1996. Þótt þetta séu enn rétt rúm-
ur þriðjungur svarenda, þá var það eftirtektarvert að ánægjan virtist hafa vaxið
mest að þessu leyti hjá þeim sem höfðu reynslu af störfum með fötluðum eða höfðu
lært eitthvað um uppeldi og kennslu þeirra. Þetta virtust auk þess líka almennt
ánægðustu hóparnir í báðum könnunum.
NIÐURLAG
Við fyrstu sýn virðast breytingar á viðhorfum starfsfólks og hugmyndum þess um
vinnubrögð varðandi sameiginlegt uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna minni en
ætlað var í upphafi. Þrennt er þó markverðast. í fyrsta lagi eru viðhorf til gildis
sameiginlegs uppeldis jákvæðari nú en fyrir áratug og munar þar mest um breytt
viðhorf ófaglærðra. I öðru lagi hafa heldur fleiri starfsmenn nú reynslu af því að
vinna með fötluðum en áður og sú reynsla virðist að öðru jöfnu færa með sér já-
kvæð viðhorf. Starfsfólk treystir sér og leikskólanum betur nú en í fyrri könnun til
að takast á við sameiginlegt uppeldi og fleiri hafa lært eitthvað til þeirra verka.
Þessar áherslubreytingar eru vissulega jákvæðar frá sjónarhóli þeirra sem aðhyllast
sameiginlegt uppeldi fatlaðra og ófatlaðra leikskólabarna. í þriðja lagi virðast hug-
myndir leikskólakennara og ófaglærðra um vinnubrögð, sem styðja sameiginlegt
uppeldi ólíkra barna, nokkuð mótsagnakenndar. Leikskólakennarar og ófaglærðir
bregðast við atriðum þar að lútandi furðu líkt og á svipaðan hátt í báðum könn-
unum. Lítill greinarmunur er gerður á atriðum sem stuðla að sameiginlegu uppeldi
ólíkra barna og atriðum sem hindra að slíkt gerist. Annars vegar er um að ræða
vinnubrögð og skipulag sem reynir að tryggja það að sérhvert barn læri og þroskist
á mismunandi sviðum mannlegrar greindar, svo sem því er framast unnt, og sé
jafnframt ekki aðeins í leikskólanum heldur fullgildur meðlimur þar. Hins vegar
eru þetta atriði sem efla tiltekna færni, en eru samt sem áður líkleg til að einangra
fötluð leikskólabörn frá ófötluðum jafnöldrum á sérdeildum eða sérskólum, eða
bregða yfir þau huliðshjálmi og gera þau þannig ósýnileg í hröðum leik og starfi á
almennri leikskóladeild.
Það er vandkvæðum bundið að túlka þessar niðurstöður svo vel sé. Hér þarf
frekari rannsóknir og aðra túlkun á þeim. Margar spurningar vakna og þær kalla á
frekari rannsókn og túlkun. Mikilvægt er að spyrja: Hvað hefur breytt viðhorfum
starfsfólks, einkanlega ófaglærða starfsfólksins, til sameiginlegs leikskólauppeldis
fatlaðra og ófatlaðra barna? Hvernig ber að skilja það að svörum leikskólakennara
og ófaglærðra svipar svo saman og hvers vegna svara þroskaþjálfar með öðrum
hætti? Þetta á ekki síst við þegar fjallað er um spurninguna sem varðar atriði sem
ýmist stuðlar að eða hindrar sameiginlegt uppeldi. Loks þarf að útskýra, hvernig á
því stendur, að ein mikilvægasta niðurstaða þessarar rannsóknar er sú hversu fátt
virðist hafa breyst í svörum starfsfólksins þessi tíu ár.
Við erum stödd á mörkum ólíkra þekkingarheima og því má ætla að merking
spurninga og svara í þessari rannsókn sé ekki hin sama 1986 og 1996.
59