Hlín - 01.01.1935, Blaðsíða 76
74
HUn
listfeng til handanna, ljek alt í höndunum á henni,
sem hún snerti á, hvað sem það var. Átti því að koma
henni fyrir einhvern tíma hjá frú Ingibjörgu, konu
Þorsteins sýslumanns, sem þá var á Ketilsstöðum á
Völlum, og þá var mesta hannyrðakona þar um slóðir.
En móðir mín undi sjer þar ekki og var komin heim
eftir viku. Mikið sá hún eftir því síðar, að þetta skyldi
vera látið eftir henni að fara heim strax. Ýmislegt sá
hún þó hjá frú Ingibjörgu, sem hún íhugaði síðar og
gat gert eftir, af útsaum einkum.
Faðir minn, Hóseas Björnsson, var ættaður úr
Þingeyjarsýslu, hann var fæddur 10. desember 1842 á
Meiðavöllum í Kelduhverfi, var hann yngstur af 11
systkinum, 39 vikna gamall var hann gefinn þeim
hjónum Hóseasi Árnasyni presti á Skeggjastöðum á
Langanesströndum og frú Þorbjörgu Guðmundsdótt-
ur konu hans. Bar hann nafn prests. Áttu þau hjón
engin börn, unnu þau honum mjög og ólst hann upp
hjá þeim við mikið ástríki til 17 ára aldurs, er hann
fluttist með fósturforeldrum sínum að Berufirði á
Berufjarðarströnd. Sótti síra Hóseas um það presta-
kall og fjekk það vorið 1858. Þar dó fóstri hans 1861,
og harmaði faðir minn hann mjög. Fluttist hann svo
með l'óstru sinni þá um vorið að Jórvík í Breiðdal, sem
álitin var besta kirkjujörðin frá Berufirði. Þar dó
fóstra hans hjá honum. Jórvík er næsti bær við Hösk-
uldsstaði, þar sem móðir mín var fædd og uppalin, og
þar kyntust foreldrar mínir og þar giftust þau 29.
sept. 1863 og þá giftist Einar móðurbróðir minn sam-
tímis Guðrúnu Helgu Jónsdóttur frá Gilsá. Brúðkaup
systkinanna var haldið heima hjá foreldrum þeii*ra á
Höskuldsstöðum og var þar fjölmenn veisla, um 300
veislugestir, einhver sú mesta veisla sem haldin hef-
ur verið í Breiðdal, tilkomumikil að rausn og myndar-
skap.