Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1951, Blaðsíða 72
ÞORSTEINN Þ. ÞORSTEINSSON:
Frá alda öðli
Adam geispaði.
Hann var orðinn dauðþreyttur og
syfjaður af að eltast í góðu við hin
dýrin, einkum apana, sem voru
nauðalíkir honum, en vildu samt
hvorki taka vinahótum hans né
skipunum, heldur murruðu, vældu,
skræktu og buldruðu móti honum
á óskiljanlegri hebresku, og klóruðu
hann og hryntu honum.
„Ja, það er til nokkurs að vera
settur höfuðvörður yfir þessa lúsa-
blesa hérna í henni Paradís“, hugs-
aði Adam með sér og var hinn reið-
asti.
Hitinn var ógurlegur í þessum
mikla aldingarði, og Adam var enn
meira einmana en áttaviltur, ein-
samall, allslaus og „mállaus" vestur-
fari mörgum þúsundum ára seinna
á eyðisléttunni miklu í Norður-
Ameríku.
Þá gekk Skaparinn um garðinn í
þungum þönkum með hendurnar
fyrir aftan bakið, og leit hvorki til
hægri né vinstri, því honum voru
vel kunnug öll sín handaverk, þótt
nokkuð langt væri umliðið frá því
hann skapaði jörðina. En alt í einu
heyrði hann skamt frá sér einkenni-
legt vanstillingar gól, fult af kergju
og lífsleiðindum. Hann þurfti ekki
að líta í áttina, þaðan sem hljóðið
kom, því hann þekti vel mannsrödd
skepnunnar, sem hann skapaði
æðsta af dýrunum. En hann gekk
til Adams og sagði:
„Æ, það ert þá þú, sem berð þig
svona bjálfalega! Hvað amar annars
að þér? Hví æpir þú einn fullur
óróa, sem ert skapaður öllum
skepnum æðri?“
„Æðstur eða lægstur! Mér er víst
sama“, hreytti Adam út úr sér. „Þeir
líta ekki við mér þessir bannsettir
apakettir, sem þú settir mig yfir,
en glenna sig framan í mig og
draga dár að mér. Og ég hefi ekki
hitt neina skepnu enn þá, sem hefur
litist vel á mig, viljað vera góð við
mig eða viðurkent mig herra sinn“.
„Ja, hvaða ósköp eru að heyra
þetta, Adam. En veiztu ekki, að
maðurinn verður að bera sig manna-
lega, svo að hinar skepnurnar líti
upp til hans?“
„Já, þú getur djarft um talað,
herra minn, sem getur breytt þér í
alt, sem alheimshugur þinn æskir,
og stendur alt til boða, sem sköp-
unarverk þitt hefur að bjóða, en ég
er hér eins og móðurlaus og utan-
veltu besefi í þessu sköpunar al-
korti, og á engan til að halla mér
að nema þig, sem ég sé ekki nema
með höppum og glöppum“.
„Ef einhver annar en ég heyrði
til þín, Adam, þá mundi hann halda
að þú værir skapari númer tvö. En
hvers æskir þú, sem hefur alt sem
þú nennir að rétta hendina eftir?“
„Ég óska eftir — nei, ég heimta
að fá meðhjálp, herra minn, og það
strax án nokkurra undanbragða.
Hvaða vit var það svo sem, að skapa
mig einan allra skepnanna eins og