Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1951, Síða 74
54
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
tala, þótt börnin héldu langar hróka-
ræður um það. En þá varð Adam
ævinlega að ægilegu spurningar-
merki, því sá grunur læsti sig um
hann, að hann væri ekki fyrsti mað-
urinn á jörðinni, og foreldrar þess-
ara barna hlytu að vera miklu eldri
en hann. Og þar sem hann var nú
farinn að gruna, að konan sín hefði
ekki verið sköpuð úr sínu rifi, þá
jók þetta honum mikils hugarang-
urs, sem ekki var laust við afbrýði.
En eftir að Kain son hans henti
slysið mikla og varð að flýja úr
foreldrahúsum, og Adam þóttist vita
fyrir víst, að hann mundi hafa flutt
til þessa fólks, þá varð honum óviss-
an enn óbærilegri. Hverra manna
gat þetta fólk verið, sem yrðu for-
feður kynslóðanna engu síður en
hann, og væru ef til vill betur komn-
ir að þeim tignartitli?
Nú voru hveitibrauðs- og aldina-
dagarnir í Paradís löngu liðnir, en
bláköld alvara, þungar búsifjar og
þrældómur höfðu heltekið hugann
og hert lófana. Þau voru bæði faíín
að eldast, hann og Eva, en voru þó
bæði býsna brött miðað við ár-
hundruð þeirra. Og Eva hélt sér
vonum betur, þótt mikið hefði hún
unnið eftir að þau fluttu úr Paradís.
Og þrjátíu dætur og þrjátíu syni
hafði hún alið honum, auk Kains,
sem komst í skömmina og hélt að
þeir sem hittu sig mundu drepa sig,
og Abels og Sets, ef trúanlegt má
taka það er herra Haukur Erlends-
son lögmaður og landnámuhöfundur
ritar á einum stað. En þessar barn-
eignir Evu og þetta eilífa strit frá
morgni til kvölds, sem Adam þakk-
aði þá ekki heldur sem skyldi þegar
fram í sótti, hafði sett merki sín á
hið fríða andlit hennar.
Þær munu vera fáar núna, kon-
urnar, sem vildu ganga í sporin
hennar Evu: Matbúa handa meira
en sextíu manns alt árið um kring
og sjá einnig um skinnkyrtlagerð-
ina, sem mest öll lenti líka á henni,
því börnin sýndust erfa það frá
Adam, að vera ekki lipur við það
verk, en voru samt nógu hótfyndin
eins og hann, ef þeim þótti kyrtill-
inn fara sér illa. Svo var þetta eilífa
suð í Adam þegar hann var heima,
þreyttur og afundinn, og svo köllin
og heimtufrekjan úr þessum mörgu
munnum, sem heimtuðu alt með
sjálfskyldu að henni eins og þau
heyrðu pabba sinn gera, þótt það
væri ekki til og hefði aldrei verið
til í kotinu. En þetta alt saman, auk
margs annars, hafði gert Evu dá-
lítið ergilega með aldrinum.
í öll þau ár, sem liðin voru frá
því, að Adam fékk fyrst ávæning
af, að aðrir menn væru til á jörðinni
en hans fjölskylda, sem nú væru að
leggja undir sig heiminn eins og
hans börn, hafði honum ósjálfrátt
dottið Eva í hug, en aldrei komið
sér að því, að bera það í tal við hana
hvort hún gæti verið formóðir þess-
ara útlendu manna, því bæði fanst
honum það særandi og meiðandi
spurning fyrir hana, en einnig nið-
urlægjandi og þungt reiðarslag á
hann sjálfan, ef grunur hans reynd-
ist réttur. En hann vissi og fann
það með sjálfum sér, að þótt sá
grunur væri sannur, mundi hann
aldrei opinberlega viðurkenna hann.
Einn seinni hluta dags um nón-