Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1951, Blaðsíða 110
90
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
Hringferðin
Eftir Robert Helgason
Sjá, morgundís
af djúpi rís,
frá draumum vekur heim,
en stjarna dags
sér leitar lags
að lýsa víðan geim.
Upp ljómar sól
sín breiðu ból
og brýzt í gegn um ský.
En lífsins þrár
um eilíft ár,
þær áfram hrinda því.
Með rökkurvöld
svo kemur kvöld
og kyrð á lífsins sjó.
í djúpið senn
fer dagur enn
í dauða, frið og ró.
Liila húsið
Eftir L. A. Jóhannson
Sjá litla húsið, er í eyði stendur
og öllum lokað, nótt og bjartan dag.
Þar stara blindir blæjulausir
gluggar
á bæjarlíf um fagurt sólarlag.
Sjá gamla strompinn, enn sem höfði
heldur
og hluttekningu þeirra fyrirleit,
er fram hjá gengu’ og ræddu’ í
lágum lestri
um leyndarmál, sem auða húsið veit.
Sjá litla húsið. — Leiðist því á
kvöldin,
er langir skuggar teygjast yfir
snæ?
Þar tindra rúður, tár sín reyna að
dylja,
er tendruð skína ljós um allan bæ.
Sjá, litla húsið er sem órótt bíði
að endurskapist fyrri hagur sinn:
Að gömul kona gráhærð dyrnar
opni,
við gestum brosi’ og segi: „Komið
inn!“
Til móður minnar
Eftir T. J. Oleson
Ef þannig lifði ég þennan dag
að þér ég hefði gleymt;
já, þér sem dýpstu og æðstu ást
mér ávalt hafðir geymt,
það væri synd — þó sé ég brott,
en sért þú heima kyr,
í hug og anda samrýmd samt
við sjáumst eins og fyr.
Og ófullkomna kvæðið mitt
þér kveðju mína ber. —
Mér betur ár frá ári skilst
það alt, sem skulda’ ég þér.
Ég vil svo margt, ég vona, — nei,
ég veit þú skilur mig.
Ég þennan dag ei dylja má
hve djúpt ég elska þig.
Sem indæl rós með ótal blöð,
er uxu’ í kyrð og leynd,
unz fegurð öll, sem áttu þau
í einni heild varð greind:
Já, móðir kær, þín ást var eins.
Hvert ár — nei, sérhvern dag
mér fagra’ og nýja nótu söng,
sem nú er heildar lag.
Um þig ég hugsa þessa stund:
mín þrá og ósk er sú
að týni’ ég aldrei trausti því,
sem til mín elur þú.
Og þann sem helgar þennan dag
ég þess af hjarta bið
að þig hann blessi, móðir mín,
þér miðli ást og frið.