Tímarit Máls og menningar - 01.12.1972, Blaðsíða 8
Tímarit Máls og menningar
titil stórríksins, borðaði írsk alþýða ekki annaö en brauð fátæklingsins -
kartöfluna. Ef kartöfluuppskeran brást af einhverjum ástæðum - þá voru
ekki önnur úrræði en dauðinn, landflóttinn eða hin vesæla brezka líknar-
starfsemi. Og árið 1845 brást kartöfluuppskeran á írlandi og því fylgdu tvö
hallærisár í viðbót. Afleiðingin var mannfellir, sem nálgaðist þjóðardauða.
Bretland, auðugasta land veraldar, frumkvöðull iðnaðarbyltingarinnar, gat
horft á það og grátið þurrum tárum, að ein milljón íra dó úr sulti fyrir
framan augun á því og hálf önnur milljón þessarar þjóðar flýði land og allt
gerðist þetta á þremur árum. Á rúmlega hálfri öld fækkaði írum um helm-
ing - um aldamótin 1900 voru þeir helmingi færri en árið 1841.
Mannfjölgun þjóða virðist stjórnast af undarlegum lögmálum. Á 70 árum
fyrir hungursneyðina miklu á árunum 1845-1850 hafði mannfólki Irlands
fjölgað um 172%. Þetta er ótrúlegur vöxtur, en það er mál enskra sagn-
fræðinga, að hér sé ekki of hátt farið. Árið 1841 hafa írar verið að minnsta
kosti rúmar 8 miljónir manna. Þessi fjölgun stafaði ekki af vexti borga á
írlandi. Miðað við England mundum við kalla írland vanþróað land, iðn-
aður og verzlun voru lítt þróuð, Bretland sá fyrir því, að írskur iðnaður
yrði ekki hættulegur þeim brezka á þessum árum. Sveitabyggðirnar urðu
að taka við þessari miklu mannfjöldaaukningu og fyrir þá sök skiptust jarð-
irnar í æ smærri parta. Jarðnæði á írlandi var yfirleitt í höndum stórgóss-
eigenda, írskra og enskra, og þeir voru margir hverjir f j avistareigendur. Þeir
lifðu á landskuldinni og eyddu henni erlendis, á Englandi eða á meginlandi
Evrópu. Árið 1842 var talið, að 6 milljónir sterlingspunda færu út úr land-
inu, ýmist sem eyðslufé, eða sem fjárfesting utan írlands. Á 18. öld var það
æ algengara, að jarðaspekúlantar tækju stórar spildur á leigu og skiptu
þeim niður í smáparta milli bænda. Landskuldin skiptist því milli hinna
lögfræðilegu eigenda og hinna, sem hirtu hana af smábændum. Þetta kerfi
leiddi af sér, að landskuld á írlandi var miklu hærri en á Englandi. Hinn
lögfræðilegi eigandi j arðanna lét sig í engu skipta kaupmálann. Hér var ekki
einu sinni hægt að íklæða arðránið persónulegum böndum jarðeiganda og
leiguliða. Gróðasjónarmiðið ríkti eitt. Réttur írskra leiguliða var einnig með
þeim hætti, að hægt var að segja þeim upp jörðinni með litlum sem
engum fyrirvara. Ef til vill hafði leiguliðinn bætt hjáleiguna og aukið hana
í verði. Þá gat gósseigandinn eða milliliðurinn flæmt hann af j arðarskikan-
um og byggt hann öðrum. En fyrrverandi ábúandi jarðarinnar átti enga
kröfu til skaðabóta fyrir það, sem hann hafði aukið bújörðina að verðmæti.
Heimspekingurinn John Stuart Mill gat sagt, að í írlandi einu væri hægt að
150