Tímarit Máls og menningar - 01.12.1972, Blaðsíða 52
Tímarit Máls og menningar
og aö vissu leyti miklu betri en hinn. Þar lærðist manni t. d. sú nauðsynlega
list að vegast með orðum.
Faðir minn var kristinn sósíalisli — óflokksbundinn þartil 1938 að hann
gekk í Sósíalistaflokkinn. Hann las töluvert og hafði gaman af að ræða málin,
þá helst pólitík og trúmál, oft hvortlveggja í einhverju undarlegu samblandi.
En hann átti ákaflega erfitt með að láta trúað fólk í friði, þurfti alltaf að
vera að koma þvi í opna skjöldu með því að vitna í Biblíuna og gera það
óöruggt í sannfæringu sinni. Á bakvið þetta bjó hans gagnrýna hugsun; hann
var maður sem efaðist alltaf undirniðri. Af öllum þessum umræðum lærði
maður auðvitað heilmikið, en þó fyrst og fremst að berjast með rökiun
og leyna ekki skoðunum sínum.
Þegar gamli maðurinn fékk viku eða svo í atvinnubótavinnunni, var vana-
lega til hnífs og skeiðar. Og ef eitthvað varð aukreitis, þá voru keyptar bæk-
ur. Svo lesefni höfðum við nóg. Og það er mér alveg ógleymanlegt, þegar við
krakkarnir vöknuðum morgun eftir morgun og heyrðum pabba, sem las
annars aldrei upphátt, vera að lesa uppúr Sjálfstæðu fólki fyrir gömlu kon-
una inní eldhúsi. Ég efast um að nokkur börn hafi nokkurntíma borið jafn-
mikla virðingu fyrir nokkurri bók.
Annars varð ég sennilega fyrir meiri pólitískum áhrifum af elsta bróður
mínum en pabba. Gamli maðurinn var mest í þessu sögulega, þessu sem var
búið og gert. En Yngvi hafði afturámóti þennan óslökkvandi áhuga fyrir
dægurmálunum, keypti Verkalýðsblaðið, sá um útbreiðslu þess, sótti sellu-
fundi í hverfinu og las mikið um öll þessi brennandi vandamál dagsins. Og
það var hann sem hvatti okkur þau yngri til að afla okkur þekkingar og verj a
okkar málstað væri á okkur ráðist. Oft voru sellufundirnir haldnir heima,
og þá lagði maður vitanlega við hlustir. Þarna var rætt um allt milli himins
og jarðar, Verkalýðsblaðið, flokkinn o. s. frv., en þó fyrst og fremst það
sem segja má að hafi verið pólitík þessara ára öðru fremur: bækur Þór-
bergs og Kiljans. Þetta átti þó seinna eftir að færast í aukana; manni virtist
stundum að pólitíkin - það væri Kiljan.
Þessir sellufundir voru tíðir. Menn þurftu oft að hittast, ekki minnst til að
stappa stálinu hver í annan. Það þurfti kjark til að vera kommúnisti á þess-
um árum.
Fyrstu kynni mín af íslenskri menntun hófust haustið 1932. Þá gekk ég
í Gamla barnaskólann.
Nú var það einn dag i nóvember þetta sama ár, að ég átti að fara í skól-
ann eftir hádegi. En eitthvað virtist hafa verið að gerast í bænum, því pabbi
194