Tímarit Máls og menningar - 01.01.1988, Blaðsíða 56
Tímarit Máls og menningar
byltingunni. Nathalie Sarraute gefur út Enfance (Bernsku), sem er brota-
kennd frásögn af því sem hún man eftir úr frumbernsku. Sjálfur gef ég út
Le Miroir qui revient (Spegillinn sem kemur aftur), þar sem ég segi sögur
frá eigin uppvaxtarárum. Marguerite Duras skrifar L’Amant, sem verður
þessi ótrúlega metsölubók um allan heim. Þrátt fyrir velgengni hennar er
þessi bók Duras á engan hátt síðri fyrri bókum hennar, en allt í einu koma
fram í verki eftir hana „ævisöguáhrif“ sem ég vil kalla svo.
Eg segi „ævisöguáhrif“ því í rauninni hafa þessir höfundar ávallt sagt frá
lífi sínu. I Le Miroir qui revient segi ég: „Eg hef alltaf einungis verið að
skrifa um sjálfan mig.“ Það er alveg satt! La Jalousie gerist á bananabúi, þar
sem ég starfaði. Ég bjó í húsinu þar sem sagan fer að mestu leyti fram. Eg
hef m.a.s. leyft að birtar væru myndir af því. Og sagan er að vissu leyti
sönn. Þetta kom fyrir mig.
Eg hef alla tíð verið að segja frá sjálfum mér. E.t.v. gildir þetta um alla
rithöfunda, en sérstaklega á þetta við nýsöguhöfundana, því þeir hafa geng-
ið sjálfhyggjunni á hönd. Grundvöllur frumspekilegrar reynslu þeirra er
einfaldlega þeirra eigin reynsla af lífinu.
Þegar þessar bækur voru að birtast á undanförnum árum, sögðu bók-
menntagagnrýnendur, sem enn voru fastir í þessari ranghugmynd um hlut-
hyggju nýsöguhöfunda: „Ef þið byrjið nú að segja ævisögur ykkar, eruð
þið búin að afneita því sem þið hafið alltaf sagt hingaðtil. Þið hafið gefist
upp á hluthyggjunni og segið nú frá lífi ykkar alveg eins og allir hinir.“
Þessu svara ég neitandi. Ekki á sama hátt og allir hinir, því að ef nýsagan
er til, þá er líka til nokkuð sem kalla mætti nýsjálfsævisögu. Hvað er sjálfs-
ævisaga? Það er nokkuð sem einhver skrifar til að gera tilveru sína áþreif-
anlega, af því honum finnst að hún hafi verið óræð og illhöndlanleg. Hann
vill sem sagt verða líkur persónu úr sögu eftir Balzac. Hann vill steypa eins
konar bronsstyttu af sjálfum sér, til að stilla upp á markaðstorginu í fæð-
ingarbæ sínum. Þetta eru gjarnan rosknir herforingjar eða aldraðir stjórn-
málamenn, og þeim finnst að tilvera þeirra hafi verið brotakennd, full af
mótsögnum, á reiki. Að orrusturnar í lífi þeirra hafi annaðhvort verið illa
unnar eða illa tapaðar. Þegar aldurinn færist yfir segja þeir: „Aður en ég
dey ætla ég að gefa þessu öllu saman stöðugleika og festu Pére Goriot“. Þá
framkvæma þeir auðvitað e.k. fölsun. Raunveruleikanum, sem er síhreyf-
anlegur, óskiljanlegur, mótsagnakenndur o.s.frv., umbreyta þeir í anda
raunsæisstefnu, en hún er andstæða hins raunverulega.
„Þar sem merkingunni sleppir,“ sagði Lacan, „hefst hið raunverulega.“
Þetta þýðir að öll merking er hugmyndafræði. „I leit minni að merkingu,"
heldur hann áfram, „rekst ég á hindrun og kemst ekki lengra. Þá er ég
46