Skírnir - 01.01.1959, Side 27
Skírnir
Um bókagerð síra Þórarins á Völlum
23
Sé þessi tilgáta rétt, skýrist enn betur, hve mikla áherzlu
Einar Hafliðason leggur á bókagerð Þórarins á Völlum. Ef
kirkjan á Breiðabólstað hefur átt bækur, sem skrifaðar voru
eftir handritum síra Þórarins, hlaut Einar að vera þess minn-
ugur.
V.
Undarlegt má það heita, að meðal bóka Vallakirkju árið
1318 er Guðmundar saga Arasonar ekki nefnd. Guðmundur
Arason hafði verið prestur á Völlum á síðasta tug 12. aldar,
og nærri má geta, að minning hans hefur verið í heiðri höfð
í Svarfaðardal. Hólakirkja hefur snemma lagt kapp á að
eignast sögur af Guðmundi, en ævisaga hans mun ekki hafa
verið til, þegar Þórarinn á Völlum varð bókagerðarmaður
Hólakirkju. Allt bendir til þess, að einhver kunnugur í Svarf-
aðardal hafi átt þátt í því að semja elztu ævisögu Guðmund-
ar. í svokallaðri prestssögu Guðmundar, sem samin var að
honum lifanda og varðveitt er í Sturlungu, er einungis laus-
lega sagt frá dvöl hans í Svarfaðardal. En í elztu sögunni eru
ýtarlegar sögur um smáatvik, sem gerðust þar. Sýna sögur
þessar mikinn kunnugleika á Völlum og annars staðar í daln-
um. Sérstaklega er eftirtektarvert, að lýsingin á hrakningum
Guðmimdar á Heljardalsheiði sýnir þekkingu á leiðinni frá
Svarfaðardal vestur að Hólum. Þann veg hefur presturinn á
Völlum eflaust farið oft. Menn gætu því látið sér til hugar
koma, að Þórarinn hafi samið Guðmundar sögu, enda mun
það láta nærri, að hún hafi verið samin um það leyti. Höf-
undur elztu ævisögu Guðmundar hefur notað Islendinga sögu
Sturlu Þórðarsonar, frænda Þórarins. Má það heita líklegt,
að Þórarinn hafi lagt kapp á að eignast eintak af sögu frænda
síns, enda var það ómissandi fyrir hinn mikla bókagerðar-
mann Hólastóls.
HEIMILDIR:
1) Helzta heimildin um síra Þórarin er Lárentíus saga, en hans er
eirrnig getið í Áma sögu biskups og dánarárs hans í annálum.
2) Sjá Sturlunga sögu, útg. Jóns Jóhannessonar, Kristjáns Eldjáms og
Magnúsar Finnbogasonar, I, 272. bls.