Skírnir - 01.01.1959, Qupperneq 51
Skirnir
Um Jón Gerreksson
47
óæðri rétti til hins æðri, en Lundur og Uppsalir séu jafnháir
og verði því frá hvorugum til hins visað.
Eftir þetta fór biskup til Stokkhólms og hvatti þau Gottskálk
og Helleku til hjónabands. Voru vomur á Gottskálki, en svo
lauk, að hann kom ásamt borgarstjóranum Jóhannesi Westfal
og vildi fá blessun kirkjunnar á hjónaband sitt við Helleku,
en fékk neitun. Presturinn, en hann hét Jóhannes Jung, sagði,
að þá blessun gæti hann ekki fengið fyrr en eftir þrjár lýs-
ingar, en þegar eftir þá fyrstu hefði Ludbert mótmælt11).
Og frá þrem lýsingum væri ekki hægt að gera undantekn-
ingu, sízt þegar vitað væri, að Ludbert hefði stefnt máli sínu
til æðri réttar. Þrátt fyrir hótanir borgarstjórans fékkst prest-
urinn ekki til að breyta þessu, og Helleka varð að snúa frá
án kirkjulegrar blessunar. En þetta kvöld leiddi borgarstjór-
inn þau Helleku og Gottskálk í eina sæng og lét herlið vera
á verði umhverfis húsið um nóttina.
Stefna Ludberts bar þann árangur, að Andrési biskupi í
Strangnesi var falið að rannsaka málið. Eftir nýjar vitna-
leiðslur kom eitthvað fram, er benti á festu „de presenti“.
Skildi þá Andrés biskup þau Gottskálk og Helleku að borði
og sæng, en þau tóku ekkert mark á því og mættu ekki, er
dóm skyldi fella. Krafðist þá Ludbert dóms, en er Andrés
biskup felldi hann, varð hann Gottskálki og Helleku hag-
stæður. Þessum dómi stefndi Ludbert einnig til Rómardóms
og fékk þaðan beiðni um nánari upplýsingar, og auk þess lá
við forboð, ef Helleka og Gottskálk yrðu ekki algerlega að-
skilin, unz endanlegur dómur Rómardóms yrði kveðinn upp.
Þetta bréf var lesið af prédikunarstóli i Stokkhólmi, en strax
og erkibiskup frétti það, sendi hann þangað yfirlýsingu, er
lesast skyldi í sama stóli, og þar var yfirlýst, að fyrra bréfið
væri falskt og ónýtt. Og til þess að gefa orðum sínum meiri
áherzlu kallaði hann Helleku og Gottskálk til sín, blessaði
þau og hélt brúðkaup þeirra hátíðlegt.
Og enn þá áfrýjaði Ludbert. Og samtímis því virðist prest-
urinn, er hér var getið að framan, hafa kært erkibiskupinn.
Þess hefur verið getið, að verið var með hótanir við hann.