Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 6
Frá ritstjóra
„Mér sýnist nefnilega að þrátt fyrir umræðu um annað reynist fræðimönnum erfitt
að komast undan gömlum og lífseigum karllægum hugmyndum um verðugleika: Að
viðfangsefni ævisögu þurfi að hafa haft til að bera einhvern mikilfengleika; vera ein-
hvers konar undantekning, brautryðjandi eða afreksmaður, að hafa starfað á sviði
pólitíkur, menningar eða lista. Og að hafa verið karlmaður.“
Þetta segir Erla Hulda Halldórsdóttir í gagnmerkri grein um ævisagnaritun
kvenna og þau margvíslegu álitamál sem þar kvikna og höfundar verða að taka
afstöðu til. Ævisagnaritun er fyrirferðarmikið efni í þessu hefti Skírnis; auk greinar
Erlu Huldu, sem vinnur að ævisögu Sigríðar Pálsdóttur (1809-1871), deilir Rósa
Magnúsdóttir með lesendum þeim fjölmörgu spursmálum sem hún þarf að takast á
við í skrifum sínum um hjónin Kristin E. Andrésson og Þóru Vigfúsdóttur, sem
mjög voru miðlæg í menningarlífi á íslandi skömmu eftir miðja 20. öld. Þórunn
Valdimarsdóttir fer nokkuð aðra leið í snöfurlegri grein um karlmann sem samkvæmt
öllum hefðbundnum mælikvörðum verðskuldar ævisögu, sjálfur faðir Reykjavíkur
— eða „ljósmóðir“; Skúli Magnússon fógeti. Völd kvenna við Breiðafjörð á miðöld-
um er svo viðfangsefni Sverris Jakobssonar í fróðlegri grein.
Eins og af þessu sést eru konur áberandi í þessu hefti Skírnis, bæði sem höfundar
og umfjöllunarefni. Ég hygg að aldrei fyrr, í nær tvöhundruð ára sögu þessa tímarits,
hafi komið út hefti þar sem mikill meirihluti greinarhöfunda eru konur. Tvær skáld-
konur eru hér líka í forgrunni; Steinunn Sigurðardóttir birtir ný ljóð og Dagný Krist-
jánsdóttir ritar ítarlega grein um skáldsögu hennar,/d/o sem komút árið 2011. Alda
Björk Valdimarsdóttir skrifar svo grein um sjálfa Jane Austen og bók hennar Emmu,
sem birtist loks á íslensku á liðnu ári í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur.
Að vanda er í heftinu efnismikil grein sem tekur á mikilvægri umræðu líðandi
stundar. Vilhjálmur Árnason, einn höfunda Rannsóknaskýrslu Alþingis sem furðu
lítið er nú vitnað til, fjallar um þróun lýðræðis fyrir og eftir hrun; og færir meðal ann-
ars rök fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslur í kjölfar neitunar forseta Islands á lögum
veiki íslenskt lýðræði — þvert á það sem oft er haldið fram, og bendir líka á færar
leiðir til að þróa lýðræðið og þroska. Eyja M. Brynjarsdóttir fjallar svo um gagnrýna
hugsun í snarpri grein, þar sem hún varar við þröngri sýn á það fyrirbæri sem oft tak-
markist við leikni í að beita rökfræðireglum. Gagnrýna hugsun þurfi hver maður að
rækta í samhengi við tilfinningar sínar og siðferðiskennd.
Skáldjöfurinn Rainer Maria Rilke opnar þetta hefti, kvæði hans Blindinginn
birtist hér í þýðingu Kristjáns Árnasonar sem einnig ritar stutta kynningu á ljóði og
skáldi. Myndlistarþáttur Skírnis er að þessu sinni helgaður einum fremsta málara
þjóðarinnar, Húberti Nóa Jóhannessyni, þar sem Jón Proppé ritar ítarlega grein um
listamanninn og verk hans.
Páll Valsson