Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 137
SKÍRNIR ÞÓRA, KRISTINN OG KOMMÚNISMINN 135
Þannig er staða einstaklingsins, bæði í persónulegu sambandi við
maka og svo við stærri hópa, í vinskap og félagsstarfi, mér sérstak-
lega hugleikin. Til viðbótar við hjónasöguna er nefnilega enn einn
áhugaverður flötur á ævisögu Þóru og Kristins: Saga þeirra er ekki
bara hjónasaga, heldur saga heillar kynslóðar. Eins og Nanna Ólafs-
dóttir (1980) skrifaði í minningargrein um Þóru vinkonu sína:
Það var meiri heppnin að þau skyldu verða hjón, Þóra og Kristinn, ekki
aðeins fyrir þau sjálf, heldur einnig fyrir okkur mörg, mörg, sem erum sam-
félagslega hugsandi, teljum sósíalismann næstu framtíð þó að eitthvert enn
betra skipulag mannheima komi þar á eftir, því ekkert er endanlegt í þeim
efnum.
Einfaldasta skilgreining á kynslóð (e. generation) er sú að það sé
hópur fólks sem deili sameiginlegri reynslu (Jureit 2006: 78). Oftast
er miðað við að í þessum hópum (e. cohort) sé fólk á sama aldri og
hafi gengið í gegnum sameiginlega reynslu sem hafi haft á það mót-
andi áhrif og sumir vilja ganga svo langt að kalla þessa reynslu
„trámatíska" (Edmunds og Turner 2002: 12). Þóra og Kristinn,
fædd 1897 og 1901, tilheyrðu þeim aldurshópi á heimsvísu semupp-
lifði tvær heimsstyrjaldir, rússnesku byltinguna og kalda stríðið.
Helstu mótandi atburðir á Islandi voru fullveldi og sjálfstæði Is-
lands en óhætt er að fullyrða að allir þessir atburðir, innlendir og er-
lendir, hafi haft gríðarleg áhrif, hvort sem fólk skipaði sér á vinstri
eða hægri væng stjórnmálanna. Þó verður nauðsynlegt að gera
greinarmun á reynslu og upplifun (þ. Erfahrung og Erlebnis) því
eins og Ulrike Jureit (2006: 81) hefur bent á, hafa alls ekki allir sem
tengja við sameiginlega reynslu kynslóða beina upplifun af at-
burðunum sjálfum sem gaf þeim nafn. Þannig voru Þóra og Krist-
inn ekki viðstödd rússnesku byltinguna en hugsjónir byltingar-
mannanna höfðu eigi að síður mótandi áhrif á þau.
Hér er þó rétt að taka fram að ef um tuttugu ár skilja að kyn-
slóðir, eins og margar skilgreiningar gera ráð fyrir, þá erum við hér
að skoða kynslóðir sem skarast en víst er að Þóra og Kristinn fóru
ekki í manngreinarálit eftir aldri enda var sagt um heimili þeirra
hjóna að þar væri ekki kynslóðabil (María Þorsteinsdóttir 1980).
Það er augljóst af ævistarfinu og stuðningi þeirra við upprennandi