Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 83
SKÍRNIR
TÁKNMYND EÐA EINSTAKLINGUR?
81
ann í ævisögu hennar.3 Þessi bréf eru hvorki skáldleg né innblásin
af pólitík Fjölnismanna, sem voru vinir bæði bróður hennar og fyrri
eiginmanns, heldur lýsa þau daglegum veruleika fremur venjulegrar
konu í bændasamfélagi 19. aldar. Bréf barnsins (skrifuð í orðastað
hennar fyrstu árin, 1817-1820), segja af hestum og kindum, tóvinnu
og hvalreka, hún hefur áhyggjur af heilsu mömmu og ömmu sem
einnig búa á heimilinu og eru haldreipin í lífi hennar. Þær skrifa líka
bréf um heilsufar og harðindi, heyskap, bjarndýr og trúlofanir. Sem
ung kona veltir Sigríður fyrir sér framtíðarhorfum sínum og lætur
sig dreyma um smávegis framfarir, líklega fremur hversdagslegar
miðað við háleitar hugmyndir ungu karlanna sem sátu úti í Kaup-
mannahöfn og vildu koma Islandi á braut framfara og menntunar.
Framfarirnar sem hana dreymir um eru persónulegar en þó sjaldan
orðaðar með beinum hætti. Þær virðast snúast um að verða betri í
dönsku og komast að heiman — sem verður að veruleika þegar hún
síðsumars 1829 leggur í langferð suður í Laugarnes í Reykjavík.
Ferðin tekur um það bil þrjár vikur þótt þar af séu aðeins níu
ferðadagar. Hún slæst í för með amtmanninum á Möðruvöllum,
Grími Jónssyni, úr Vopnafirði til Akureyrar og þaðan fer hún með
hjónum að Víðivöllum í Skagafirði. Fyrir fimm spesíur kaupir hún
mann til fylgdar frá Víðivöllum um Stórasand yfir í Kalmannstungu
efst á Hvítársíðu og þaðan í Laugarnes þar sem hún verður stofu-
stúlkahjá biskupshjónunum Steingrími Jónssyni og Valgerði Jóns-
dóttur (Lbs 2413 a 4to. Sigríður Pálsdóttir 18. sept. og 23. nóv.
1829). Hún elskar og giftist Þorsteini Helgasyni, sem hafði verið
trúlofaður biskupsdótturinni, en missir hann eftir fárra ára hjóna-
band og býr í nokkur ár sem ekkja. Hún giftist aftur eftir að hafa
fengið bónorðsbréf í pósti, sér Heklu gjósa 1845, missir þrjár dætur
af sex og hótar seinni manni sínum skilnaði þegar henni finnst
brotið á sér og dætrum sínum. Hún er með sull eins og mamma
hennar áður og í bréfum síðari eiginmanns hennar eru nákvæmar
3 Á handritadeild Landsbókasafns eru skráð 240 bréf í nafni Sigríðar Pálsdóttur til
Páls Pálssonar undir safnmarkinu Lbs 2413a 4to. Nokkur bréf til viðbótar með
hendi Sigríðar eru meðal bréfa ömmu hennar Sigríðar Orum. f þeim tilfellum
hefur Sigríður skrifað á sömu örk og amma hennar.