Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 170
168
SVERRIR JAKOBSSON
SKÍRNIR
Uppgangur Þórðar í kjölfarið er athyglisverður. Hann tekur við
búi Ara að Stað á meðan maður að nafni Oddur dignari stjórnar búi
móður hans í Hvammi. Oddur virðist hafa verið eins konar bústjóri
Sturlunga því að hann fylgir síðar Sighvati Sturlusyni að Staðarhóli.
Eftir að Ari sterki lést í Noregi 1188 kom Guðný aftur til Islands og
tók við búi í Hvammi, en Þórður bjó áfram á Stað (Sturlunga saga
1 1946: 231). Hann skildi við Helgu en bjó áfram á höfuðbóli föður
hennar og gengur að eiga Guðrúnu Bjarnadóttur, höfðingjadóttur
úr Flóanum og ,,[t]ók hann við henni mikið fé. Gerðist Þórður þá
höfðingi" (Sturlunga saga I 1946: 232). Ætt Ara fróða virðist hafa
misst mannaforráð á Snæfellsnesi en Þórður situr í erfðagóssi
hennar eins og ekkert væri sjálfsagðara. Hér virðist Guðný Böðvars-
dóttir hafa vélað um þannig að sonur hennar nyti góðs af.
Sighvatur, bróðir hans, fær einnig skjótan frama. Hann gerir bú
að Staðarhóli 1191, sex árum eftir lát Einars Þorgilssonar. Einar var
veginn af skillitlu fólki á Heinabergi en systur hans tóku arf eftir
hann. Af þeim fara mestar sögur af Yngvildi sem giftist Halldóri
Bergssyni en „varð ekki unnandi Halldóri, bónda sínum" (Sturl-
unga saga I 1946: 69). Eftir lát hans bjó hún í Sælingsdalstungu og
eignaðist þar dótturina Sigríði með Þorvarði Þorgeirssyni, mági
Hvamm-Sturlu. Þetta mislíkaði Einari bróður hennar en Sturla í
Hvammi tók þá við „sókn ok vörn allra hennar mála, sem hann væri
aðili“ (Sturlunga saga I 1946: 73). Síðar eignaðist Yngvildur dótt-
urina Jóru með Klængi Þorsteinssyni, biskupi í Skálholti. Þegar
Einar var veginn hafði Þorvaldur Gissurarson í Hruna eignast Jóru
og sótti Yngvildur því hann að eftirmáli og var frilla Einars rekin frá
Staðarhóli í kjölfarið (Sturlunga saga I 1946: 231). Yngvildur er
dæmi um konu sem fór sínu fram í ástarmálum og gat jafnan reitt sig
á stuðning höfðingja og jafnvel teflt þeim hverjum gegn öðrum ef
svo bar undir.
Önnur systir Einars, Hallbera, var gift Gunnsteini Þórissyni
presti og tók Þorgils sonur þeirra við staðnum á Staðarhóli (Sturl-
unga saga I 1946: 231). Frændur Einars virðast hafa erft goðorð
hans því að 1262 er Vigfús Gunnsteinsson í hópi goðorðsmanna, en
hann var sonarsonur Halls Gunnsteinssonar, bróður Þorgils (Sturl-
unga saga II 1946: 282). En þótt Gunnsteinssynir hafi líklega farið