Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 203
SKÍRNIR ER EMMA SJÁLFSHJÁLPARHÖFUNDUR? 201
róttæka og kvenhatursfulla eðlishyggja Weiningers hefðu ekki verið
heppilegri til skilnings á sögupersónunni Emmu.
Nærtækari skýringu, hvað sem líður hugmyndum um eðli kvenna,
væri að finna í því að til langs tíma voru hjónabandið og tilhugalífið eina
svæðið sem konur höfðu beinan aðgang að, höfðu skoðanir á og gátu
beitt sér innan, þar sem hið opinbera svæði samfélagsins var þeim
lokað. Því fengu umræður um hjúskap og möguleg sambönd talsvert
vægi í þessum kvennaheimi. Þessi áhugi, sem skýra má a.m.k. að hluta
af útilokun karlveldisins, leiddi síðan til þess að konan var talin vera
innantóm, flöt og óskynsöm og ætti því ekki heima á hinu opinbera
svæði, auk þess sem bókum sem snúa að þessum hugðarefni var skipað
neðar í virðingarstigann en skáldverkum sem fjalla um áhugasvið karla.
Sem menningarsöguleg nálgun verður kenning Weiningers forvitnileg
ef haft er í huga að kvennamenningin verður til vegna útilokunar karl-
veldisins. Karlveldið gagnrýnir síðan konur fyrir það að skrifa um
innilokaðan kvennaheim en ekki um það sem nýtur virðingar á vett-
vangi ráðandi menningar.
I þessu samhengi skiptir mestu máli að Austen er sér augljóslega
meðvituð um þær afleiðingar sem slíkar félagslegar takmarkanir
hafa á andlegt líf kvenna og samskipti þeirra í milli og ekki síður að
Emma ber þessari kynjakúgun merki. Hún er ekki frjáls eins og sést
best á því að umtalsverðar gáfur hennar og ímyndunarafl finna sér
ekki uppbyggilegan farveg, heldur snúast nánast einvörðungu um að
finna heppilegan maka fyrir skjólstæðing sinn Harriet Smith og
velta vöngum yfir því hverjir í hennar nánasta umhverfi séu að
skjóta saman nefjum. Hún sleppir ímyndunaraflinu líka fullkom-
lega lausu, verður að stjórnlausu og hættulegu afli, eins og þegar
hún spinnur upp sögu um erótískt hjúskaparbrot milli Jane Fairfax
og herra Dixon, manns sem hún hefur aldrei hitt. Líf hennar virðist,
eins og Tony Tanner bendir á, vera eitt stórt millibilsástand. Það
verður hún að fylla með einhverju og gerir með ráðabruggi sínu,
enda hefur hún ekkert betra við tímann að gera,17 hún er við það
að sturlast úr leiðindum.
17 Tanner 1986: 182: „For the basically unemployed Emma, life is full of ‘in-be-
tweens’ — in a way it is one long ‘in-between’ — and she fills them with
‘scheems’. She has to fill them with something.“