Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 158
156 ÞÓRUNN ERLU VALDIMARSDÓTTIR SKÍRNIR
aður fyrir. Þeir sem báru út óhróður um kvennafar og ólifnað Skúla
urðu að greiða háa sekt og biðjast fyrirgefningar. Var hann þó
svakafenginn á stundum. Hann sá um fjármál Hólastóls, lenti í
ásökunum, en vann málaferlin. Utvegaði nýjan prentstíl til prent-
verksins. Frammistaða hans gerði sitt til að koma honum í mjúkinn
hjá stjórninni. Hann þjónaði sýslunni í tólf ár og sannaði sig sem
einn stjórnsamasta höfðingja landsins.
Skúla opnaðist sæti þegar landfógeta Kristjáni Drese var vikið úr
embætti fyrir drykkjuskap, sukk og sjóðþurrð. Drese þessi lenti í illri
kerlingu, segir Jón Aðils (1911: 58-59), óvandaðri eldabusku, sem
píndi hann til að kvænast sér og elti hann með hníf. Drese gaf henni
„allómjúkar ráðningar með svipu“, en hún spillti öllu þó. Það var
sem sagt ekkert að Drese fógeta, hann bara komst í klær þessarar
voðalegu dömu!
I sýslumannsskýrslu sinni minntist Skúli á að illt væri að ekki
væri völ á hæfum duglegum íslenskum manni í fógetaembættið (Jón
Jónsson Aðils 1911: 61; Skúli Magnússon 1947: 44). Vinveitt jús-
tizráð sem skýrsluna las mælti við Lassen Hofsóskaupmann að nú
vantaði umsókn frá Skúla. Lassen var nógu mikill vinur Skúla til að
gera sér lítið fyrir og rita umsókn í hans nafni og Skúli fékk emb-
ættið, fyrstur Islendinga. Um þennan skyndilega uppgang sinn sagði
Skúli í sjálfsævisögu sinni: „Allir urðu forvirraðir, því áður höfðu
þeir þeinkt, að so illur djöfull sem landfógetinn gæti ómögulega
verið íslenskur. Hann og hans nafn var íslenskum eins hræðilegt
sem drekinn í Babylon.“
Vefsmiðjuþorpið Reykjavík
Nálgumst Innréttingarnar afstætt og innlifunarlega. Þarna er fullt
af forvitnilegu fólki, mikill tækjabúnaður, unnið í akkorði við að
spinna og vefa í þrettán vefstólum, hægt var að vinna gólfteppi á
annan stærsta vefstólinn (Lýður Björnsson 1998: 67, 72-73). Hér
ganga skotrokkar og hörrokkar, balbínusnældur, lóskurðarsöx,
skinnapressa og pressa til að þrykkja lituðu mynstri á tau. Með-
tökum dásemdar orðarunur yfir liti, Brasilíutré, gult blátt og rautt