Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 62
60
EYJA M. BRYNJARSDÓTTIR
SKÍRNIR
á, (ii) skynsamlegum sköpunarmætti, þ.e. hún breytir í samræmi við hugs-
anir sínar, hugsunin úthverfist í verki, og þessu til viðbótar þá (iii) beinist
gagnrýni hennar og sköpunarmáttur að henni sjálfri sem siðferðilegri veru
ekki síður en ytri viðfangsefnum, (iv) hún er fær um að taka virkan þátt í
gagnrýnu rökræðusamfélagi — rannsóknarsamfélagi og (v) hún ber ríkulegt
skynbragð á umhverfi sitt. (Ólafur Páll Jónsson 2008: 111-112)
Lýsingar Ólafs Páls og Guðmundar Heiðars hljóma báðar vel og
má hugsa sér að sóst sé eftir einhverju í ætt við þær þegar talað er um
að efla þurfi kennslu í gagnrýninni hugsun. Við viljum, vænti ég,
samfélag þar sem fólk er virkt í yfirvegaðri rökræðu og skynsemi og
gagnkvæm virðing svífur yfir vötnunum, fólk lætur ekki segja sér
einhverja vitleysu, það er víðsýnt, leitar sannleikans, er tilbúið að
endurskoða eigin afstöðu þegar svo ber undir og enginn þarf að vera
hræddur við að taka til máls. Það sem við þurfum hins vegar að
skoða betur er að hve miklu leyti kennsla í gagnrýninni hugsun sem
felst fyrst og fremst í einhvers konar námskeiði í grundvallar-
atriðum rökfræðinnar og fræðslu um algengar rökvillur færir okkur
nær þessu göfuga markmiði. Þegar talað er um að efnahagshrunið
hafi komið til vegna skorts á gagnrýninni hugsun, eða að mikilvægt
sé fyrir samfélagið að efla kennslu í gagnrýninni hugsun, er það
væntanlega eitthvað á borð við gagnrýna hugsun í víðari skilningi
sem óskað er eftir. Hugmyndin er sú að við hefðum þurft að hugsa
betur, verða betri hugsuðir, en ekki bara að allt hefði orðið betra ef
Islendingar hefðu upp til hópa verið sleipari í rökleikni.
Er einhver göfugur tilgangur með því einu og sér að þjálfa sig í
rökleikni? Vissulega má finna kosti við slíka þjálfun og ég nefndi
nokkra þeirra hér að ofan. En ef nemendur, á hvaða skólastigi sem
er, fá rökleikniþjálfun undir heitinu „gagnrýnin hugsun" án þess að
hún sé sett í samhengi við nokkuð annað og fá svo þau skilaboð að
þar með séu þeir útskrifaðir sem gagnrýnir hugsuðir þá held ég að
jafnvel sé betur heima setið. Þessar áhyggjur eru ekki úr lausu lofti
gripnar. Eins og áður hefur verið nefnt felst kennsla í gagnrýninni
hugsun gjarnan í einhvers konar rökleikniþjálfun og svo hefur borið
við að þeir sem hafa kynnt sér gagnrýna hugsun í þessum þrönga
skilningi eiga það til að fara að líta á sig sem útskrifaða gagnrýna
hugsuði. En rökleikni ein og sér tryggir ekki allt það sem þarf til að