Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 77
SKÍRNIR SKYNSEMI EÐA RÖKLEIKNI 75
Leroi Daniels (1999a) rök fyrir því að gagnrýnin hugsun sé marg-
þættur eiginleiki sem þurfi að flétta saman við ýmislegt annað. Þau
hafna því að gagnrýnin hugsun sé afmörkuð hæfni (e. skill) eða að
hún felist í einhverjum tilteknum hugrænum ferlum (e. mentalpro-
cesses) eða verklagi (e. procedure). Þau halda því fram að gagnrýnin
hugsun sé ekki færni sem hægt sé að æfa sig í óháð viðfangsefni með
endurtekningu, eins og þegar við æfum okkur í að halda bolta á
lofti. Til dæmis sé ekki hægt að æfa sig í að bera saman hluti nema
með því að hafa skilning á þeim hlutum sem bera á saman. Það í
hverju gagnrýnin hugsun felst nákvæmlega geti verið afar misjafnt
eftir aðstæðum hverju sinni en sérstaklega leggja þau áherslu á að
hún snúist ekki bara um að leggja mat á rökfærslur og staðhæfingar
þó að slíkt geti vissulega verið mikilvægur þáttur í henni. Þau benda
á að gagnrýnin hugsun geti brugðist af ýmsum öðrum ástæðum en
að fólki bregðist bogalistin við mat á rökfærslum og ástæðum, til
dæmis vegna þess að viðkomandi átti sig ekki á öllu því sem taka
þarf tillit til við þá ákvörðun sem um ræðir og hvað geti talist
ástæður og eins geti verið að fólk líti framhjá öðrum möguleikum
en þeim sem það sjálft geri ráð fyrir (Bailin o.fl. 1999b: 288-289).
Miðað við lýsingar Bailin og félaga er ekki laust við að efi sæki
að um möguleikann á því að læra, æfa sig í eða kenna gagnrýna
hugsun. Þau vilja þó ekki gefa það upp á bátinn og segja gagnrýna
hugsun fela í sér fimm gerðir úrræða: Bakgrunnsþekkingu, þekk-
ingu á viðmiðum góðrar hugsunar, þekkingu á lykilhugtökum,
leiðbeinandi reglum og síðast en ekki síst hugrænum venjum. Það
að hafa þekkingu og ályktunarhæfni dugar nefnilega skammt ef þær
eru ekki notaðar með ábyrgum hætti. Sú notkun felst í ákveðinni
afstöðu og að temja sér ákveðna hluti, en þar nefna Bailin og félagar
meðal annars sannleiksást, víðsýni, réttsýni, forvitni, sjálfstæði í
hugsun, virðingu fyrir öðrum sem og fyrir því þegar aðrir vita betur,
til dæmis vegna sérfræðiþekkingar eða reynslu (Bailin o.fl. 1999a:
281, 1999b: 290-295).
Þetta er í raun náskylt því sem Páll talar um, að við þurfum að
rækta viljann til að „hlýða kalli hinnar gagnrýnu hugsunar". I
báðum tilfellum er áherslan á ákveðna afstöðu sem við þurfum að
hafa til að stunda gagnrýna hugsun. Og þetta held ég að sé nauðsyn-