Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 85
SKÍRNIR
TÁKNMYND EÐA EINSTAKLINGUR?
83
Mér sýnist nefnilega að þrátt fyrir umræðu um annað reynist
fræðimönnum erfitt að komast undan gömlum og lífseigum karl-
lægum hugmyndum um verðugleika: Að viðfangsefni ævisögu þurfi
að hafa haft til að bera einhvern mikilfengleika; vera einhvers konar
undantekning, brautryðjandi eða afreksmaður, að hafa starfað á
sviði pólitíkur, menningar eða lista. Og að hafa verið karlmaður.
Þannig voru viðmiðin þegar kvennasagan gerði fyrir alvöru atlögu
að karllægum gildum sagnfræðinnar um 1970 og femínískir sagn-
fræðingar hófu að endurheimta líf kvenna úr gleymsku fortíðar og
breyta því hvernig sagan er rannsökuð og skrifuð. Þessi viðmið áttu
ekki aðeins við um hina sagnfræðilegu ævisögu heldur einnig sagn-
fræðina almennt — hvað taldist sögulega mikilvægt og þess verðugt
að um það væri skrifað.5
I nýlegri grein um ævisögur kvenna segir bandaríski sagnfræð-
ingurinn Susan Ware að sagnfræðingar hafi tilhneigingu til þess að
velja einstakling til ævisögulegrar rannsóknar með tilliti til stöðu
hans í víðara sögulegu samhengi. Með öðrum orðum, sagnfræðing-
urinn vill gjarnan segja stærri sögu en þá sem hverfist um líf einnar
manneskju. Áskorun hans sé þar af leiðandi hvernig nota megi
þennan einstakling sem „glugga" til víðara útsýnis (Ware 2010: 422-
424). Ein helstu rökin fyrir því að skrifa sögu einstaklings, falli hann
ekki undir flokk stjórnmálamanna, brautryðjenda, skálda eða ann-
arra „verðugra", hafa einmitt oft verið þau að þetta tiltekna líf megi
nota til þess að skoða hvernig einstaklingurinn lifði í stærra sam-
hengi: Hvernig hann upplifði samfélagsbreytingar eða stóratburði
sögunnar. Hversu dæmigerður (representatífur) er einstaklingurinn
fyrir hóp, tímabil, stétt, kyn — fyrir þá sögu sem á að segja, er
gjarnan spurt. Jafnframt er rætt um nauðsyn þess að gæða söguna lífi,
gera hana mannlega með sögum af fólki, sem er einmitt það sem
hefur gert ævisögur vinsælar frá ómunatíð (Caine 2010: t.d. 1-2,23-
27; Hamilton 2009: 8-9; Possing 2005; Ware 2010).
Þótt ég sé í aðra röndina sammála Ware um mikilvægi einstakl-
ingsins sem „glugga“ til fortíðar og þar af leiðandi einnig þeim sem
5 Um þetta hef ég fjallað í doktorsritgerð minni, Nútímans konur (Erla Hulda Hall-
dórsdóttir2011a).