Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 88
86
ERLA HULDA HALLDÓRSDÓTTIR
SKÍRNIR
skilyrði sem þurfti til að verða ,viðeigandi‘ viðfangsefni ævisögu"
(Caine 2010: 106). Af þeim sökum var lögð áhersla á að finna og
skrifa um „verðugar konur“, konur sem sköruðu fram úr eða höfðu
í lífi og starfi haft áhrif á umhverfi sitt, til dæmis með þátttöku í
félagshreyfingum kvenna, á sviði menningar og lista, í stjórnmálum
o.s.frv. Þessar konur var hægt að fella inn í form hinnar hetjulegu
karlævisögu (Alpern 1992: 4; Caine 2010:105-106; Ware 2010: 413-
414). En eins og Barbara Caine benti á í grein um femíníska ævi-
söguritun og sagnfræði árið 1994 var áhersla á kvenhetjur af þessu
tagi í grundvallaratriðum andstæð því meginmarkmiði kvennasög-
unnar að rannsaka og varpa ljósi á líf venjulegra kvenna. Þótt sögur
af undantekningum og þekktum konum væru mikilvægar sem
slíkar, og afrek þeirra mættu ekki falla í gleymskunnar dá, voru þær
ekki lýsandi fyrir líf og stöðu alls þorra kvenna. Af þessum sökum hélt
Caine því fram að ævisagan (hin ævisögulega aðferð), eins og hún
hafði verið stunduð væri tvíbent í kvennasögulegu tilliti. Hún væri
annars vegar um of bundin af forminu sem fæli í sér áherslu á
„verðugar" konur en hins vegar ein mikilvægasta leið femínískra
fræðimanna til þess að skilja margbreytileg líf og mismunandi reynslu
kvenna í fortíðinni (Caine 1994:249-251; sjá einnig Caine 2010:106).
Þar að auki hentaði frásagnarmáti karlævisögunnar ekki fyrir
sögur af ævum kvenna, m.a. af þeirri einföldu ástæðu að líf þeirra
runnu til skamms tíma eftir öðrum farvegum en líf karla. Menntun
kvenna, störf inni á heimili, vinna, barneignir, hjónaband — allt laut
þetta öðrum lögmálum hjá konum en körlum því langt fram á 20. öld
höfðu konur ekki sama aðgang og karlar að menntun og embættum
— og gilti þá einu þótt lögformleg réttindi væru til staðar. Hugarfarið
var hinn ókleifi veggur. Lífsferill karla var gjarnan rakinn frá barn-
æsku, áhrifavaldar í æsku, mótun/uppeldi, menntun, starfsframi, líkt
og Rósa Magnúsdóttir ræðir í sinni grein í þessu hefti. Einhvers staðar
á þessum ferli var hápunktur, risið — það sem gerði einstaklinginn
verðugan. Hið persónulega var lengi lítt sýnilegt í sagnfræðilegum
ævisögum karla (Caine 1994: 249-250; Caine 2010: 106).10
10 í bók Barböru Caine, Biography and History, er gott yfirlit yfir sögu fræðilegra
ævisagna. Kynjasjónarhornið er áberandi en um kyngervi og ævisögur, og ævi-