Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 171
SKÍRNIR KONUR OG VÖLD í BREIÐAFIRÐI ... 169
með goðorð Einars Þorgilssonar virðast þeir hafa haft lítil völd og
ekki haldið sínu gagnvart Sturlungum. Þorgils flytur að Stað í
Reykjanesi, en ein af dætrum hans, Halldóra, giftist Jóni króki Þor-
leifssyni, systursyni Sturlunga. Samkvæmt Sturlungu keypti Sig-
hvatur Staðarhól hálfan fyrir Galtardalstungu. Einnig kemur fram
að foreldrar Jóns króks, Þuríður Sturludóttir og Þorleifur skeifa,
voru í félagi við Sighvat (Sturlunga saga I 1946: 234).
I Sturlungu fer litlum sögum af valdakapphlaupi Þórðar og Sig-
hvats við Gunnsteinssyni. Þvert á móti virðast Sturlungar ná næsta
fyrirhafnarlítilli forystu í héraðinu. Sighvati leiddist vistin á Staðar-
hóli og var lengstum með Þórði bróður sínum á Stað „því at þá var
svá ástúðugt með þeim bræðrum, at nær þóttist hvárrgi mega af
öðrum sjá“ (Sturlunga saga I 1946: 231-232). Guðný hefur eflaust
ýtt undir samstöðu sona sinna. Hún er í för með þeim þegar þeir fara
ásamt tveimur hálfbræðrum sínum til að sækja mál í Saurbæ og eru
fá dæmi um jafn mikla samstöðu Sturlunga (Sturlunga saga I 1946:
232).
Virðist Þórður fara mjög fyrir þeim bræðrum á þeim árum.
Þórður Sturluson átti helstu höfuðbólin á Snæfellsnesi, Eyri og
Staðastað, og virðist einnig hafa átt ítök í Bjarnarhöfn. Guðný
Böðvarsdóttir, móðir hans var „fyrir búum Þórðar, sonar síns, at Stað
eða á Eyri“ áður en hún flutti að Reykholti 1218 og fékk þar bús-
forráð á meðan Snorri Sturluson var erlendis (Sturlunga saga 1 1946:
271). Hún var því jafnan nátengd valdasókn Sturlunga í héraðinu.
Ekki er fyllilega ljóst hvers vegna þeir bræður gnæfa yfir aðra
höfðingja í héraðinu svo skömmu eftir lát föður síns, á meðan þeir
eru enn ungir að árum. Fyrir því virðast ekki vera neinar stað-
bundnar orsakir sem getið er um í Sturlungu en það hlýtur hafa
skipt máli að tengslanet þeirra var sterkt. Sturlungar áttu svo einnig
öfluga bandamenn á alþingi, en flestir þeirra höfðingja voru mægðir
Sturlungum og virðast þau tengsl hafa skipt höfuðmáli í að tryggja
þeim bandamenn.10 Dvöl Snorra Sturlusonar í Odda virðist hafa
10 Sjá t.d. Sturlunga sögu 1 1946:233, þar sem Þórður, bróðir Guðnýjar, er nefndur
til sögu sem bandamaður Sturlunga á alþingi 1196, en einnig mágar Þórðar
Sturlusonar úr Flóanum. Þá veittu Oddaverjar Sturlungum og má tengja það við
dvöl Snorra Sturlusonar í Odda.