Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 222
220
JÓN PROPPÉ
SKÍRNIR
eftir minni en ekki á staðnum. Það er erfitt að skilgreina hvað þetta
er enda hefur skáldum gengið betur en fræðimönnum að lýsa blæ
minninganna. Aðferðin veitir tíma inn í ferlið milli upplifunar og
myndgerðarinnar og Húbert Nói hefur sjálfur velt því fyrir sér
hvernig það virkar: „Tími, tilfinningar, minningar, hafa ákveðið
gegnsæi: Hugsanir leggjast hver yfir aðra, þar er upplifunin, eilítið
á skjön við ytri veruleika.“5
Kortlagning rýmis
Titlar myndanna, hnattstaðan, opna síðan aðra vídd því þar er vísað
til annars kerfis en þess sem bóndinn og ferðamaðurinn styðjast við.
Þetta er stærra kerfi sem leitast við að geta staðsett hvern einasta
hlut á allri jörðinni út frá einni reglu, hnitum lengdar og breiddar.
Meðan eyktarmörk eru sértæk og eiga bara við á einum stað, einni
bújörð, er hnattkerfið abstrakt, ósýnilegt net sem lagt er yfir alla
jörðina. Það skiptir þá í rauninni engu máli hvað er undir netinu
eða hvar maður er staddur, hver hnútur í netinu á sitt nafn í kerfinu,
t.d. 64°12'78"N 21°14'20"W.
Þessar vangaveltur og mismunandi nálganir við staði og stað-
setningar, áttir og áttun, endurspegla ævagamalt heimspekilegt
vandamál: Hvernig hugsa skuli um rými og samhengi hluta í því. I
nærumhverfi okkar veldur þetta sjaldnast miklum vanda. Við rötum
yfirleitt okkar leið og getum leiðbeint ókunnugum ef þeir hafa villst
af sinni. En jafnvel þótt við höldum okkur heima á hlaði þurfum
við alltaf að horfa lengra. Eyktarmörk, t.d., gagnast bóndanum ekki
nema hann viti hvernig sólargangi er háttað þann daginn, hvort það
er þriðja vika sumars eða komið haust. Annað vandamál sem Is-
lendingar þekkja vel er hvernig rata skuli þegar engrar birtu nýtur
og kennileiti sjást ekki eða illa. Hvoru tveggja þessara vandamála
hafa menn snemma leyst með því að fylgjast með himintunglum og
skilja ferð þeirra eins og við skiljum sólarganginn. Eins mótsagna-
kennt og það kann að virðast þurfum við til að átta okkur að geta
skilið sjónarhorn sem er annað en okkar eigið, að geta staðið utan
við og skoðað okkur sjálf í samhengi við aðra hluti nær og fjær,
fjöllin í fjarska eða stjörnurnar á himninum.