Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 172
170
SVERRIR JAKOBSSON
SKIRNIR
lagt grundvöll að bandalagi Sturlunga við Oddaverja og hefur ef-
laust munað um minna. Á meðan Sturlungar voru svo vel tengdir á
alþingi máttu aðrir höfðingjar sín lítils gagnvart þeim í héraði.
Alsystur þeirra Þórðar, Sighvats og Snorra voru Helga, sem átti
Sölmund Austmann, og Vigdís. Virðast þau Helga og Sölmundur
hafa búið í Kalmanstungu í Borgarfirði og gerði Egill, sonur þeirra,
bú í Reykholti eftir daga Snorra Sturlusonar (Sturlunga saga 1 1946:
455, 465). Af þessari fjölskyldu fara engar sögur fyrr en eftir víg
Snorra utan það að Sölmundur er sendur með boð Snorra til Sighvats
árið 1236 (Sturlunga saga 1 1946: 390). Hér má sjá vísi að landfræði-
legri dreifingu afkomenda Guðnýjar þar sem þau Snorri og Helga
settust að í Borgarfirði.
Vigdís Sturludóttir átti hins vegar Gelli Þorsteinsson í Flatey
(Sturlunga saga I 1946: 52, 235). Hann var sonur Þorsteins Gyðu-
sonar, bónda þar. Systir Þorsteins, Helga Gyðudóttir, bjó að
Brjánslæk og átti vináttu við Sighvat Sturluson: „Helga hafði búfé
fátt, en lendur góðar. Sighvatr lagði jafnan stórfé til bús hennar, en
tók slíkt í mót af lendum, sem hann vildi. Ok dróst með því stórfé
undir Sighvat." Sighvatur bjó að Hjarðarholti í Laxárdal frá 1197.
Þar bjó áður Magnús, sonur Guðmundar Brandssonar, en hann
virðist ekki hafa átt erfingja því að hann handsalaði Sturlu Þórðar-
syni staðinn eftir sinn dag (Sturlunga saga I 1946: 234-235). Það er
auðvitað til marks um ríki Hvamm-Sturlu og sona hans að þeir ger-
ast iðulega erfingjar barnlausra höfðingja í héraðinu. Sighvatur er
hins vegar ennþá ungur maður þegar hér er komið sögu og því
væntanlega enn undir handleiðslu móður sinnar.
Sighvatur styrkti síðan stöðu sína enn frekar með því að ganga
að eiga Halldóru Tumadóttur. Hún var dóttir Tuma Kolbeinssonar
í Skagafirði og Þuríðar Gissurardóttur, dóttur Gissurar Hallssonar
lögsögumanns í Árnesþingi. Eftir lát Tuma giftist Þuríður Sigurði
Ormssyni og bjó Halldóra með þeim að Svínafelli (Sturlunga saga
I 1946: 234-235). Sighvatur tengist því í einu vetfangi þremur
höfðingjaættum en þar að auki voru þetta allt höfðingjar sem höfðu
verið mótherjar Sturlunga á alþingi 1196. Frásögn Sturlungu er
fáorð um aðild Guðnýjar að þessum ráðahag en síðar kemur fram
að hún fylgdist vel með brúðhjónunum, t.d. í frásögn um draumfarir