Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 84
82
ERLA HULDA HALLDÓRSDÓTTIR
SKÍRNIR
lýsingar á bólgum undir bringspölum og viðbjóðnum sem gusast
út þegar skorið er á meinið. Hún verður gömul og flyst í skjól
dóttur sinnar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, verður aftur ekkja og
deyr tæplega 62 ára.
Líf Sigríðar, eins og það birtist mér, á sér stað í sendibréfum og
fáeinum opinberum heimildum og frásögnum af fólki henni tengdu.
Móðir hennar var Malene Jensdóttir, dóttir dansks verslunarmanns
og Sigríðar Orum sem tók ljósmóðurpróf hjá Sveini Pálssyni árið
f803, þá fimmtug. Bróðir Sigríðar Örum var Geir Vídalín biskup,
kallaður góði, og var hún á heimili hans um árabil um og upp úr
1800. Faðir Sigríðar var Páll Guðmundsson, sýslumannssonur aust-
an af landi. Páll varð sýslumaður fyrir austan eins og forfeðurnir en
dó eftir fá ár í embætti árið 1815 frá konu og fimm ungum börnum.
Tveimur árum síðar var elsta barnið, ellefu ára drengur sem hét Páll
eins og faðir hans, sendur suður í Odda á Rangárvöllum þar sem
góðvinur foreldra hans Steingrímur Jónsson, þá prófastur, og kona
hans Valgerður, tóku við honum. Brottför Páls markar upphaf viða-
mikilla bréfaskrifa móður hans og ömmu, systranna tveggja og síðar
bræðranna heima á Héraði. Þessum bréfum, og þúsundum annarra
sem Páll fékk um ævina, hélt hann til haga og eru þau nú varðveitt
á Handritadeild Landsbókasafns Islands - Háskólabókasafns.4
Einstaklingurinn og sagan
Áskorunin sem ég stend frammi fyrir þegar skrifa á um líf Sigríðar
snýst ekki um skort á heimildum, af þeim er nóg, heldur frásagnar-
rammann því hún passar ekki inn í hefðbundnar aðferðir eða viður-
kennda kenningaramma ævisögunnar. Enda fékkst Sigríður Páls-
dóttir í raun ekki við neitt af því sem hingað til hefur gert konu þess
verðuga að um hana sé skrifuð ævisaga.
4 Bréfasafn Páls hefur safnmarkið Lbs 2409-2415 4to. Jafnframt má benda á að ein
bréfabóka Finns Sigmundssonar um miðbik síðustu aldar er tileinkuð safni Páls,
Skrifarinn á Stapa. Þar má finna upplýsingar um fjölskyldu Páls. Sjá einnig aðra
bréfabók Finns, Geir biskup góði ívinarbréfum sem kom út árið 1966. Loks er rétt
að benda á íslenskar <eviskrár Páls Eggerts Ólasonar fyrir þá sem vilja fletta upp
á sýslumönnum, biskupum og öðrum sem fengu nöfn sín í það verk.