Skírnir - 01.04.2013, Blaðsíða 204
202
ALDA BJÖRK VALDIMARSDÓTTIR
SKÍRNIR
Emma hefur líka fjárhagslegt frelsi til þess að láta hugann reika
og samfélagsstaða hennar er slík að hún þarf litlar áhyggjur að hafa
af afleiðingum gjörða sinna, hún ríkir nánast ein á tindi samfélags-
ins litla í Highbury. Tanner telur ábyrgðarleysi Emmu birtast í því
að hún á 30.000 pund en ekkert land og engar fasteignir (e. pro-
perty). Rekstur eigna er ábyrgðarhluti og felur í sér skyldur sem eru
ekki án umbunar. Þessu er öðruvísi farið með peninga sem gera ekki
sömu kröfu til eigandans og því felur fjárhagslegt frelsi hennar í sér
þá hættu að hún blekki sjálfa sig og afvegaleiði aðra með hörmu-
legum afleiðingum (Tanner 1986: 180).
Mynd Tanners af Highbury og heimilislífinu á Hartfield er gam-
alkunn, en hún hefur verið dregin skýrum dráttum innan Austen-
fræðanna, svo ekki sé minnst á þá fjölmörgu kvikmynda- og
sjónvarpsþætti sem gerðir hafa verið eftir sögunni síðustu tvo ára-
tugi.18 Emma hefur mörg af persónueinkennum Austen sjálfrar, er
hnyttin og fjörug, býr yfir samræðuhæfni og ímyndunarafli án þess
þó að finna sköpunarþörf sinni merkingarríka útrás. Kannski má
sjá hana sem vannærða skáldkonu sem tekst ekki að brjóta sér leið
út fyrir stífa og þrönga múra samfélagsins, en líklega er engin per-
sóna Austen jafn hreinræktuð birtingarmynd stjórnsama ráðgjaf-
ans og hjúskaparmiðlarans og Emma þó að margar séu til kallaðar,
eins og frú Bennet í Hroka og hleypidómum, frú Jennings í Sense and
Sensibility og Mary Musgrove í Persuasion.19
18 Þótt sögusviðið í Clueless (Amy Heckerling, 1995) hafi verið flutt til Beverly
Hills og sagan gerist í nútímanum, passar Cher Horowitz (Alicia Silverstone), en
hún er í hlutverki Emmu, um margt ekki inn í umhverfi sitt. Það fullnægir illa fjör-
ugu ímyndunarafli hennar og er letjandi, þröngsýnt, endurtekningarsamt, óþol-
andi leiðinlegt og kæfandi.
19 Sýnin á Emmu sem sjálfshjálparhöfund birtist á skýran hátt í einni af þeim fjöl-
mörgu bókum sem skrifaðar voru fyrir unglinga um Cher Horowitz söguhetju
Clueless, í kjölfar óvæntra vinsælda kvikmyndarinnar. Cher’s Guide to... Whate-
ver eftir H.B. Gilmour (1995) er sjálfshjálparrit fyrir ungar stúlkur þar sem sögu-
persónan Cher leggur þeim lífsreglurnar, segir þeim hverju þær eigi að klæðast,
hvernig þær eigi að hegða sér á stefnumótum, láta gott af sér leiða, rökræða við
kennara um einkunnir og margt fleira.