Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 12
S va n h i l d u r Ó s k a r s d ó t t i r
12 TMM 2014 · 1
Þessi gögn spanna tímann frá tólftu öld til þeirrar tuttugustu og á meðal
þeirra eru höfuðdýrgripir þjóðarinnar. Þarna eru bækurnar og brotin sem
Íslendingar þráðu svo ákaft að fá aftur í sínar hendur. Handritin sem komu
heim frá Danmörku á árunum 1971–1997. Sem betur fer nær fúkkalyktin
sem fyllir vitin á klósettinu í Árnagarði ekki inn í geymsluna þar sem þau
þjappa sér saman í röðum.
Hvernig annast skal handrit
Ég býst við að ef gerð væri skoðanakönnun mundu flestir Íslendingar lýsa
sig sammála þeirri fullyrðingu að það ætti að hugsa vel um handritin. En
hvað felst í því? Jú, það þarf að geyma þau við rétt skilyrði og vernda þau
fyrir hnjaski og öðru því sem flýtt getur hrörnun þeirra. En slíkt er einungis
frumforsendan, byrjunin. Því eins og Brynjólfur biskup Sveinsson benti á
fyrir hálfri fjórðu öld, er sinnuleysið versti óvinur fornra bóka: að loka þær
inni og varna fólki að kynnast því sem þær hafa að geyma er fremur að eyða
þeim en varðveita.7 Þess vegna er svarið við spurningum eins og: „Farið þið
ekki að verða búin að taka við handritunum?“ að við verðum aldrei búin.
Ef umhyggja fyrir hinum fornu bókum er tekin alvarlega þá vinnum við
stöðugt að því að rannsaka og birta textana sem þær geyma, bæði þá sem
aldrei hafa verið gefnir út og líka hina sem einhvern tíma hafa verið prentaðir
vegna þess að nýir tímar leiða af sér breyttan skilning á gömlum sögum og
kvæðum og þess þarf að sjá stað í útgáfum. Við þurfum líka að finna leiðir
til þess að opinbera myndlistina sem býr í handritunum og tónlistina, ekki
síður en bókmenntirnar. Og við þurfum að spyrja spurninga um tilurð,
merkingu og tilgang þessara listaverka. Okkar mikli arfur – ógrynni texta,
heilt haf af handritum, vitnisburður um íslenska hugsun, sköpun, tungutak
í átta hundruð ár – kallar á mikla vinnu ef réttilega á að vernda handritin en
ekki eyða þeim. Stefnuleysi Íslendinga í málefnum Árnastofnunar, sinnuleysi
þeirra gagnvart handritunum, er í reynd eyðingarstefna.
Það kom fram hér fyrr í greininni að um handritin véluðu sjö manns,
þar af fjórir rannsóknardósentar/prófessorar. um aldamótin voru þeir níu.
Þeim hefur semsé fækkað um meira en helming á rúmum áratug – sú þróun
hófst fyrir hrun. Þá var núverandi handritasvið hryggjarstykkið í „gömlu“
Árnastofnun en hún var síðan sameinuð fjórum öðrum stofnunum árið
2006 eins og fyrr segir. Sameiningin var vilji ráðuneytis og stjórnvalda og
röksemdirnar voru hefðbundnar: litlar einingar eru óhagkvæmar, mikilvægt
er að ná fram samlegðaráhrifum, spara það fé sem þarf til skrifstofuhalds og
rekstrar og nýta fjármunina þá betur til hagsbóta fyrir fræðin – og þjóðina
alla. Til þess að sýna nú að þeim væri alvara áformuðu stjórnvöld að reisa
byggingu yfir hina sameinuðu stofnun, svo hún gæti sameinast í veru-
leikanum en ekki bara á pappír, og sömuleiðis fékk nýja stofnunin í tannfé
tvær rannsóknarstöður og var önnur kennd við Árna Magnússon, hin við