Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 105
Þ v o t t a d a g a r
TMM 2014 · 1 105
Nokkrum dögum seinna, þegar hún var ekki heima, kom Bragi aftur og bar
fleira dót út í sendibíl.
„Ég er ekki tilbúinn að láta jarða mig lifandi upp úr þrítugu,“ sagði hann
við Óskar þegar þeir bræður hittust nokkrum dögum síðar og hljómaði
eins og skilnaðurinn væri hans hugmynd. Þeir sátu yfir ölkrúsum á rólegri
krá í miðbænum og töluðu í hálfum hljóðum. Bragi sagði að hann hefði
verið búinn að ákveða að fara frá Þóru löngu áður en hann kynntist ungu
stúlkunni. Því litla ævintýri væri lokið, það hefði ekki verið neitt neitt, hann
hefði bara flúið ástleysi Þóru í faðm stúlkunnar.
„Ég get alveg feisað hversdagsleikann og að lífið er stundum hafragrautur
og soðin ýsa en ekki stanslaust partí, en að eiga konu sem nennir ekki að tala
við mann þegar maður kemur heim úr vinnunni á kvöldin heldur fer bara
endalaust um íbúðina með afþurrkunarklút og spreyjar á pottablóm eins og
einhver mállaus maskína, nennir aldrei að fara neitt út, aldrei, ekki á pöbb
eða í bíó, bara hanga heima öll kvöld með fýlu og þrifnaðaræði. Og kynlífið!
Drottinn minn! Ekki minnast á það. Það er líka ekki frá neinu að segja.“
„En þessi tvítuga stelpa, er þetta einhver hasargella?“ spurði Óskar ákafur.
„Það er ekki málið. Hún er algjört aukaatriði.“
„Já, en áttu mynd af henni eða eitthvað? Hvað heitir hún?“
Bragi hristi hausinn og bandaði frá sér með hendinni. „Ég held mér veiti
ekkert af góðri pásu frá kvenfólki,“ sagði hann og andvarpaði þungt. Ekki
fékkst orð meira upp úr honum um ungu stúlkuna. Á þessum árum þótti
Óskari ekkert meira freistandi en falleg tvítug stúlka. Núna myndi honum
þykja það allt of ungt.
Bragi bjó hjá móður sinni í nokkrar vikur en leigði sér síðan íbúð í mið-
bænum. Sögur tóku að berast af því að Þóra vendi þangað komur sínar.
Bíllinn hans Braga sást líka fyrir utan hans fyrra heimili. Móðirin ljómaði
yfir þessum fréttum enda hafði hún óbeit á hjónaskilnuðum og hafði alltaf
álitið Þóru góðan kvenkost. Þegar móðirin var síðan farin að þurfa að passa
Ölmu litlu í hverri viku út af því að foreldrarnir voru að mæla sér mót taldi
hún ljóst hvert stefndi.
En það varð bið á að Bragi flytti heim til Þóru. Óskar varð forvitinn og
áræddi að hringja í Braga og spyrja.
„Nei, takk! Ég hef ekki áhuga á að fara í fangelsi aftur,“ sagði Bragi og
fussaði.
Mörgum árum seinna átti hann eftir að sitja í raunverulegu fangelsi. En
það var önnur saga.
Árin liðu, eitt-tvö-þrjú. Bragi og Þóra fengu lögskilnað, Bragi tók saman
við aðrar konur og skildi við þær aftur eftir stuttar sambúðir. Stundum átti
hann bara kærustur. Engu að síður bárust Óskari af og til fregnir af því að
Bragi og Þóra væru enn einu sinni að skjóta sér saman. Smám saman missti
Óskar áhugann. Þetta var eins og rispuð plata. Svo frétti hann að Þóra væri
loksins farin að búa með öðrum manni og þar með virtist þetta langdregna