Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 36
36 TMM 2014 · 1
Erla Þórdís Jónsdóttir
Sendur með svipu
Í járnskápnum fann ég þrjár smásögur eftir móður mína. Eina gat ég lagað að eigin stíl
og fellt inn í Stúlku með maga, heimsókn Erlu lítillar á Landspítalann þegar hún áttaði sig
á kynlífinu og látnum systkinum. Hinar tvær sögurnar urðu gúlpar sem lentu í skærum
við vinnslu bókarinnar. Hér er önnur … ég fiktaði lítið við textann. Mamma las hana í
útvarpið 1950. – Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir
Það er vistlegt hérna í stofunni hjá Línu og Bjarna. Vafningsjurtin vex upp
eftir þilinu og með loftlistunum með ævintýrablæ. Gömlu myndirnar á
kommóðunni eru gluggar að horfnum heimi, lágar dyr í lítil hús með himin-
víddir.
Lína er að hella á könnuna frammi í litla eldhúsinu og ilminn leggur inn
í stofuna. Hún er búin að leggja á borð fyrir okkur þrjú. Bjarni situr í körfu-
stólnum sínum við borðið á móti mér. Hann er lotinn og hrumur, kominn
fast að níræðu. Samt er minnið gott, lundin létt og ljómi í augum. Lína
kemur með könnuna og hellir í bollana.
– Viltu ekki segja mér einhverja sögu af sjálfum þér, Bjarni? spyr ég. – Þú
hlýtur að hafa lent í ævintýrum í æsku.
Þetta þykir honum heimskuleg athugasemd.
– Það var nú ekkert ævintýralegt að lifa í þá daga, elskan mín. Eilíft strit
til sjós og lands.
– En þú hlýtur að hafa frá mörgu að segja, ég sé það á hrukkunum á enn-
inu á þér, haha!
– Jaaa, maður hefur nú lent í ýmsu, segir hann og hlær með mér. Augun
leiftra meðan hann flettir upp í minninu.
– Kannski ég segi þér frá því þegar ég var sendur með svipuna … það var
sumarið þegar ég var á ellefta árinu.
– Það hefur þá verið 1871, ári eftir að afi var sendur burt á Álftanes, gríp
ég fram í og sé hann fyrir mér í heimaunnum ullarfötum með sauðskinnsskó
á fótum. Hann er horfinn inn í söguna:
Koparsmiður í Vogunum sendi mig með svipu, vandaðan grip, silfurbúinn,
til Gunnars stórbónda í Kirkjuvogi. Þangað var um þriggja tíma gangur yfir
Hafnaheiði. Ég hafði aldrei fyrr farið einn svo langa leið og var ekki laus við
kvíða. Laust eftir hádegi lagði ég af stað ríðandi á Rauð hennar mömmu.