Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 119
Áva r p
TMM 2014 · 1 119
því, að hraði í hringrás efna í andrúmslofti hefði lítið breyst frá dögum Haralds hár-
fagra og forföður okkar allra, Ragnari loðbrók.
Nú hlýnar lofthjúpur jarðar stöðugt, haf súrnar, jöklar og hafísþekjur bráðna
hratt. Jöklafræði hefur orðið æ mikilvægari fræðigrein, eftir því sem liðið hefur á
starfsævi mína, og þeir sem taka við mínum störfum sjá væntanlega enn hraðari
breytingu í umhverfi og samfélagi en ég hef gert.
Það kann að vera gaman að vera Íslendingur, – á Íslandi – atast í öllu. Íslenskur
vísindamaður veit allnokkuð um margt, en verður seint heimsmeistari á þröngu
sviði. Ég reyndi þó að halda mig við afmarkað fræðasvið, – jökla. Í upphafi starfsfer-
ils míns þótti mörgum það eitt vera of þröngt starfssvið fyrir jarðvísindamann á
Íslandi.
Ég hef reynt að vera raunsær á eigin hæfileika eða getu. Frumleiki minn var ekki
annar en að hugsa það, sem átti við á hverjum tíma. Styrkur minn sem vísindamaður
hefur verið nokkurt vantraust á eigin verkum; tortryggni á eigin niðurstöður hefur
ýtt á mig að gera æ betur.– Með aldrinum hef ég náð sjálfstrausti þingeyskra forfeðra
minna, sem töldu sig geta gert margt jafnvel og aðrir, – þó aldrei betur. Tilviljanir og
heppni reyndust mér vel, og ég hef verið fleira en faðir minn í mér, – en ég tel, að
lífsbraut mín hafi ákvarðast fyrst og fremst af uppruna og uppvexti. Hæfileikar réðu
þar ekki úrslitum.
Að flestum þeim verkefnum, sem ég hef unnið að síðastliðna þrjá áratugi, hafa
margir komið. Ég er orðinn elstur þeirra og get fagnað, að yngri menn halda nú
áfram því, sem ég kem ekki í verk. Ég gleðst yfir virðingu, sem jöklafræði nýtur
núna – glaciologian, fræðin um ís í öllum myndum, í allri cryosferunni. Ég tel viður-
kenningu Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright mesta heiður, sem vísinda-
manni er sýndur hér á landi, bæði vegna þess að henni er ætlað að hvetja Íslendinga
til vísindarannsókna á öllum fræðasviðum og vegna þeirra, sem hana hafa hlotið.
Mér þykir vænt um að sjá, að störf mín eru vel metin, og ég mun vinna að því að
reynast traustsins verður. Þetta eru mér einnig hvatningarverðlaun. Ég þakka.