Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 31
Í s l e n s k i b æ r i n n
TMM 2014 · 1 31
xi
Sérhver bær er ólíkur þeim næsta, þó báðir séu óumdeilanlega hlutar af
sama byggingarstílnum. Hvert hús innan húsaþyrpingarinnar er með sínu
sköpulagi, ólíkt því næsta í hlutföllum og stærðum en heildin samt í innri
sátt og fullkomnum samhljómi. Þetta er grundvallareinkenni íslenska
torfbæjarins og lykillinn að fagurfræði hans. Hver byggði með sínu nefi í
samræmi við viðtekna hefð.
Fyrir hundrað árum voru nær 6000 bæir á landinu, dreifðir um öll lands-
horn: hverjum þeirra tilheyrðu 10 til 20 hús auk eldri húsa og útihúsa;
samanlagt gætu því um 80–100 þúsund torfbyggingar hafa fyrirfundist á
síðasta skeiðinu.17 Svo fyrirferðarmikill og ríkur var þessi arfur að nálega
hefur verið til staðar eitt torfhús, á misjöfnum aldri, á hvern landsmann.
Miklar heimildir eru til um þetta síðasta og merkasta tímabil íslenska bæjar-
ins og svanasöngur þess er enn í minni elstu manna.
xii
Ljósmyndatæknin spannar allan blómatímann, fyrst í meðförum atvinnu-
manna og útlendinga og síðar í höndum almennings með fjöldaframleiddar
kassavélar. Það er ekki síst í fjölskyldualbúmum en einnig í teikningum,
myndum og frásögnum fólksins sem bjó til bæina og bjó í þeim, að þessi
arfur hefur varðveist. Nú fer hver að verða síðastur að skrá og safna saman
því sem enn er eftir af lifandi þekkingu um arfinn. Hana er eingöngu að
finna, með fáum undantekningum, hjá elstu kynslóð núlifandi Íslendinga.
Hér er um að ræða mikilvægt verkefni sem ekki má lengur bíða, tilvalið
fyrir unga arkitekta, þjóðfræðinga, safnafræðinga og myndlistarmenn.
Til þess að geta spurt réttu spurninganna, skilið svörin og fylgt þeim eftir
er nauðsynlegt að hafa staðgóðan skilning á hugmyndafræði torfbæjar-
arfsins. Afar mikilvægt er að gera sér grein fyrir mismunandi aðferðafræði í
frásagnartækni þegar fólk lýsir bæ frá æskuárum. Sumir fara hús úr húsi og
draga upp skilmerkilega mynd af húsatorfunni allri og jafnvel útihúsunum
með, aðrir byrja á atburði eða hlut og spinna út frá honum spíralkenndan
vef. Ef rétt er á haldið geta báðar aðferðir gefið jafn góða mynd af staðháttum
og húsaskipan. Til þess að geta unnið úr og gætt munnlegar upplýsingar
og tilfallandi myndefni lífi er nauðsynlegt að hafa glöggt myndskyn og
teiknikunnáttu.
Á skjalasöfum, byggðasöfnum, Þjóðminjasafni Íslands og Ljósmyndasafni
Reykjavíkur er mikið magn mynda í álögum og bíða úrvinnslu og endurlífg-
unar. Það er mikilvægt og nauðsynlegt skráningarverkefni að safna saman
afritum af þessum myndum, stærri og smærri, í gagnagrunn. Mikilvægast
er þó að túlka þær af alúð, þekkingu og innsæi, setja fram á lifandi hátt og
sýna þar með fjölbreytnina, umfangið, dýptina og fegurðina í blómstrandi