Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 74
A u g u s t o M o n t e r r o s o
74 TMM 2014 · 1
brann þeim í brjósti og á þremur dögum var samið frumvarp með kröfugerð
þess efnis að þjóðin flýtti framleiðslunni á samanskroppnum höfðum.
Fáeinum mánuðum síðar höfðu höfuðin náð fádæma vinsældum í landi
Mr. Taylors, eins og okkur öllum er enn í fersku minni. Í fyrstu voru þau
forréttindi efnameiri fjölskyldna, en lýðræði er nú einu sinni lýðræði – því
getur enginn neitað – og innan fárra vikna höfðu jafnvel kennarar ráð á að
kaupa þau.
Það heimili stóð ekki undir nafni sem gat ekki státað af samanskroppnu
höfði . Svo komu safnarar fljótlega til sögunnar og tilheyrandi mótsagnir
í kjölfarið: það þótti ekki samræmast góðum smekk að hafa í eigu sinni
sautján höfuð, en það var fínt að eiga ellefu. Með tímanum urðu þau svo
algeng að fína fólkið missti áhugann og keypti aðeins eitt í algerum undan-
tekningartilvikum, ef það hafði sérkenni sem greindi það frá hinum hvers-
dagslegu. Danfeller-stofnuninni var gefið eitt sem var mjög sérstakt, með
prússneskt yfirvararskegg. Í lifanda lífi mun það hafa tilheyrt margheiðr-
uðum hershöfðingja, en stofnunin veitti strax á móti þrjár og hálfa milljónir
dala til að hvetja til frekari þróunar á þessu sérlega spennandi menningar-
formi meðal þjóða Rómönsku-Ameríku.
Í millitíðinni hafði ættflokkurinn tekið svo miklum framförum að nú gat
hann státað af eigin göngustíg í kringum Dómhöllina. Alla sunnudaga og á
sjálfan þjóðhátíðardaginn fóru þingmenn eftir þessum skemmtilega stíg á
hjólunum sem fyrirtækið hafði gefið þeim meðan þeir ræsktu sig, skörtuðu
fjöðrum sínum og hlógu alvarlegir í bragði.
En, hvað haldið þið? Það er ekki alltaf góðæri. Þegar menn áttu síst von á
varð í fyrsta sinn vart skorts á höfðum.
Og þá hófst mesta fjörið.
Eðlilegur aldurtili dugði nú engan veginn til. Nótt eina þegar þokan lá þétt
yfir varð heilbrigðisráðherrann gripinn einlægni og játaði fyrir konu sinni,
eftir að hafa gælt við brjóst hennar um stund í myrkrinu svona bara til þess
að gera það, að hann teldi sig nú ekki geta fjölgað dauðsföllum upp að því
marki sem fyrirtækið krafðist. Hún sagði honum að hafa ekki áhyggjur, allt
færi vel að lokum, og best væri að fara að sofa.
Til að bæta fyrir þessa gloppu í stjórnkerfinu var óhjákvæmilegt að gera
stórfelldar ráðstafanir og ströngum dauðarefsingum var komið á.
Dómarar báru saman bækur sínar og gerðu hinar smávægilegustu yfir-
sjónir að glæp sem var refsað fyrir með hengingu eða aftöku eftir því sem
við átti.
Meira að segja hin einföldustu glappaskot töldust glæpsamlegt athæfi.
Tökum dæmi: Ef einhver glopraði út úr sér í ofur hversdagslegum samræð-
um: „Það er mjög heitt“, og svo sannaðist eftir á með hitamælingu að það var
í raun ekki svo heitt, þá var sá hinn sami sektaður um svolitla upphæð og
samstundis færður fyrir aftökusveitina. Fyrirtækið eignaðist höfuðið, en rétt
er að taka fram að bolinn og útlimi fengu syrgjendur.