Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 91
H e r ó d ó t u s i f y l g t ú r h l a ð i
TMM 2014 · 1 91
við Nicholas lækni Cariglia á Akureyri sem í daglegu tali er kallaður Nick.
Nick ólst upp hjá mafíunni í New York en gerðist hippi og vildi ekki fara í
Víetnamstríðið. Faðir hans sem hafði barist í seinna stríði vissi að ekkert
var gaman að vera í stríði og bauðst til að skjóta hann í hnéð svo hann yrði
óhæfur til herþjónustu. Nick sagði: Hey, wait a minute, og flúði til Bologna
á Ítalíu að læra læknisfræði. Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem hefur
fengið 10 í aðaleinkunn á kandídatsprófi í læknisfræði. Hann er límheili og
fékk 10 í öllum prófunum. Íslenskir læknar segja: Iss, þetta hafa verið einhver
létt próf þarna í Bologna. Borginni var þá stýrt af kommúnistum sem og lengi
síðan, algert gósenland fyrir Nick. Seinna náðaði Jimmy Carter hann fyrir
brotthlaupið. Þarna kynntist Nick stelpu frá Akureyri og hefur starfað á FSA
s.l. 40 ár sem skituleggjandi, þ.e.a.s. hann fæst aðallega við ristilspeglanir.
Hann er einlæglega ástfanginn af ristilspeglunum en hefur jafnframt iðkað
laxveiðar síðan 1969. Ég spurði hann: Hefur þetta ekki verið mikil vinna? Jú,
svaraði Nick, ef maður vill ná árangri í svona hobbíi verður maður að leggja
mikla vinnu í það. Og hefurðu fengið borgað fyrir það? Nei, ég hef borgað
með mér. Ég þarf ekki að borga með mér, sagði ég, ég fæ prósentur ef ein-
hverjar verða. Ha? sagði Nick. Hann vissi ekkert hvað ég var að tala um. Ég
sagði helst aldrei nokkrum lifandi manni frá þessu tómstundagamni mínu.
Gríska getur stundum verið dálítið knosuð og maður rennir býsna blint
í óséðan texta. Ég hef líkt því við að þótt maður kunni íslensku getur þurft
talsverða yfirlegu áður en maður skilur dróttkveðnar vísur. Ég get nefnt
dæmi: poll‘ oid‘ alópex, all‘ ekhínos hen mega þýðir orðrétt: Margt kann
refur, en broddgöltur eitt mikið. Á latínu er þetta þýtt orðrétt, Multa novit
vulpes, sed echinus unum magnum. Margt kann refur, en broddgöltur eitt
mikið. Beina þýðingin er samt engin íslenska – og torskilin. Við verðum
að þýða eitthvað á borð við: Refurinn kann margar brellur en brodd-
gölturinn kann eina brellu mjög vel. Það var þegar rebba brást aldrei slíku
vant bogalistin. Hann hafði þulið sínar mörgu brellur yfir broddgeltinum.
Veiðihundar komu og átu refinn áður en honum tókst að beita þeim. Brodd-
gölturinn gerði það eina sem hann kunni, setti sig í hnút. Hann slapp. Mér
hefur stundum fundist þessi knosaða dróttkveðna grískuþýðing líkust því ef
strengjafræðingur þyrfti að flytja úr sexvíðu Calabi-Yau rými inn í þrívíða
stofu í raðhúsi á Akureyri. Reyndar líður strengjafræðingum best í ellefu
víddum en það er önnur saga. Þannig er forngrískan.
Menn hafa spurt mig: Hvað næst. Ég svara á móti: Klukkan hvað er næst.
Ég hafði lengi staðið tvístígandi frammi fyrir Þúkýdídesi. Hann var arftaki
Heródótusar með bók sinni sem heitir Pelópsskagastyrjöldin. Gallinn er
bara sá að mér finnst Þúkýdídes ekki jafn skemmtilegur og Heródótus.
Þúkýdídes var sjúklega afbrýðisamur alla ævi út í Heródótus og sneiðir
að honum í bók sinni eins og ég kem inn á í eftirmála Rannsókna. Annan
verri galla hefur Þúkýdídes þó, bókin er endaslepp. Hún endar á þremur
punktum. Mér er ekki um endasleppar bækur. Sumir handritafræðingar