Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 108
Á g ú s t B o r g þ ó r
108 TMM 2014 · 1
„Við tökum bara ekki í mál að standa í þessu þvottastandi lengur … eins
og … eins og eitthvað ókeypis þvottahús.“ Rödd hans var óstyrk.
Bragi hvessti augun á þennan mann sem honum hafði tekist svo frábærlega
að bæla niður með sér alla afbrýðisemi gagnvart hingað til. Hafði bara þjáðst
í hljóði og sýnt engin merki þess að honum mislíkaði að þessi ókunnugi
náungi væri að sofa með Þóru, stúlkunni sem Bragi myndi í einhverjum
skilningi alltaf eiga hvert bein í.
Aldrei látið á neinu bera. Og þetta voru þakkirnar!
Nú steig þessi langbælda afbrýðisemi upp og lagðist við gremjuna yfir
því að slettirekan væri að eyðileggja fullkomið þvottafyrirkomulag og góða
og eðlilega vináttu fyrrverandi sambýlisfólks. Hnefinn og handleggurinn
sem skaut honum fram voru knúnir bæði þessari gömlu og nýju bræði og
krafturinn var svo mikill að Bragi þurfti að draga úr högginu áður en hann
sleppti hnefanum, en þó ekki meira en svo að Þormar þeyttist aftur, lenti á
veggnum og lak þar niður eins og í kráarslagsmálum í gamalli kúrekamynd.
„HEFuRðu ALDREI GERT VINI ÞÍNuM GREIðA, HELVÍTIð ÞITT!“
öskraði Bragi yfir honum. Þormar strauk blóð undan nefinu og þreifaði
með fingurgómunum eftir sprungnum vörunum. En síðan hjólaði hann eld-
snöggt í Braga og reyndist óvænt ólseigur; þeir stigu hægan og langdreginn
dans, eins og geimfarar á tunglinu, en hvor með hinn í haustaki (þannig
fékk Bragi hálsríginn sem hann kvartaði undan við mömmu þeirra Óskars),
hvorugur hafði hinn undir og þeir slepptu ekki takinu fyrr en Þóra öskraði
að hún ætlaði að hringja á lögregluna.
***
Það gat vel verið rétt hjá Sigrúnu að hún þrifi oftar en hann en hún ætti samt
að viðurkenna að hann hafði komið mikið til. Ef hún fór til dæmis í ferðalag
án hans sá hann oftar en ekki til þess að allt væri hreint þegar hún kom til
baka. Svo mátti ekki gleyma því að hann sá um bílinn og ýmislegt tilfallandi
viðhald auk þess að þéna meira en hún. Núna styttist í að hún komi heim úr
sumarbústaðnum þar sem hún hefur eytt helginni með vinkonum sínum.
Hann var kominn í stuð eftir að hafa þrifið salernið, þar sem hann notaði
óspart einnota klútana, þvert ofan í tilmæli hennar, og ryksugaði öll gólfin
og strauk yfir þau með rakri moppu. Hann ákvað að skilja ryksuguna eftir
á miðju stofugólfinu. Sú skyldi ekki voga sér að fetta fingur út í það eftir allt
sem hann var búinn að leggja á sig! En svo hugsaði hann með sér að það
væri óþarfi að spilla þessari fullkomnu mynd og gekk frá ryksugunni inn í
ræstikompu.
Hann velti því fyrir sér hvort hún yrði til í tuskið í kvöld. Hreinleg
aðkoman myndi ekki spilla fyrir auk þess sem hún yrði áreiðanlega í góðu
skapi eftir vel heppnaða helgi með vinkonunum.
En allt eins var líklegt að hún segðist vera of þreytt þegar hann færi á fjör-