Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 72
72 TMM 2014 · 1
Augusto Monterroso
Mister Taylor
Kristín Guðrún Jónsdóttir þýddi úr spænsku
– Nei, ekki jafn skrítin, en hún hefur líklega meira fordæmisgildi, sagan af
Mr. Percy Taylor, hausafangara í Amasónskóginum, sagði hinn.
Það er vitað að hann fór frá Boston í Massachusetts árið 1937. Þar hafði
hann fágað anda sinn af slíkri natni að hann átti hvorki í sig né á. Árið 1944
birtist hann í fyrsta skipti í Rómönsku Ameríku, nánar tiltekið á Amasón-
svæðinu, og bjó meðal frumbyggja af ættflokki sem við þurfum ekki að
muna nafnið á.
Baugarnir undir augunum og svengdarlegt yfirbragðið gerðu það að
verkum að menn fóru fljótt að kalla hann „fátæka Kanann“, og skólabörn
bentu jafnvel á hann og köstuðu í hann grjóti þegar hann gekk fram hjá
með gljáandi skeggið undir gullinni hitabeltissólinni. En það fékk ekki á Mr.
Taylor að vera kominn í svo niðurlægjandi aðstæður því hann hafði lesið
það í fyrsta bindi af Heildarverkum Williams G. Knight að smán fylgi ekki
fátækt, beri maður ekki öfund í garð þeirra ríku.
Eftir fáeinar vikur höfðu innfæddir vanist honum og kynlegum klæða-
burði hans. Auk þess sýndu forseti landsins og utanríkisráðherra honum
einstaka virðingu þar sem hann var bláeygur og með dálítinn hreim, enda
voru þeir hræddir um að koma af stað fjaðrafoki í alþjóðasamfélaginu.
Svo snauður var hann orðinn og vesæll að dag einn fór hann út í skóginn
í leit að jurtum sér til næringar. Þegar hann hafði aðeins gengið fáeina
metra, án þess að þora að líta um öxl sá hann af einskærri tilviljun gegnum
laufþykknið glitta í tvö innfædd augu sem störðu á hann. Hægur hrollur fór
niður eftir viðkvæmu baki Mr. Taylors, en hann var hugrakkur maður og lét
þetta ekki á sig fá; hann hélt því áfram göngu sinni blístrandi líkt og ekkert
hefði í skorist.
Í einu stökki (ónauðsynlegt er að taka fram að hann stökk eins og köttur)
var sá innfæddi kominn fast að honum og hrópaði:
– Buy head? Money, money.
Jafnvel þótt verri enska gæti tæplega hugsast áttaði Mr. Taylor sig á því,
sér til nokkurrar hrellingar, að sá innfæddi var að bjóða til sölu einkennilega
samanskroppið mannshöfuð sem hvíldi í lófa hans. Vart þarf að taka fram
að Mr. Taylor hafði alls ekki ráð á að kaupa höfuðið; en þar sem hann þóttist