Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 89
H e r ó d ó t u s i f y l g t ú r h l a ð i
TMM 2014 · 1 89
leyti fram í vinnunni á Hvolsvelli og á Hellu en lítillega í sumarafleysingum
á Akureyri. Ég gat haft allt Heródótið á bakvið heilsugæsluskjölin í tölvunni.
Hverjum leitanda er á heilsugæslunni úthlutað tuttugu mínútum með lækni.
Ég sá að ég gat gert þeim sama gagn á korteri og tuttugu mínútum. Síðustu
fimm mínúturnar voru hvort sem er oftast bara baðstofuhjal. Ég tók því 5
mínútur framan af tíma hvers og eins leitanda og þannig varð þýðingin á
Heródótusi til.
Fyrstu tvö árin á Hvolsvelli voru auk þess mjög róleg hjá mér. Ég starfaði í
næsta herbergi við mikinn berserk, Guðmund Benediktsson sem flúið hafði
krabbameinslækningar og starfaði þarna við heilsugæslu. Var hann daglega
með 38 viðtöl á stofu og 14 símtöl en ég með tvo á stofu og eitt símtal. Seinna
sé hland fyrir hjartað í Guðmundi og þá fór að vera meira að gera hjá mér
með áður áminnstu fimmmínútnafyrirkomulagi.
Til hliðsjónar hafði ég nokkrar þýðingar á ensku, eina á frönsku, eina á
spönsku, eina á ítölsku og eina á esperantó. Þessi tungumál getur maður
kraflað í ef maður hefur lært ensku og latínu. Jafnframt hafði ég tvær
þýðingar á þýsku til hliðsjónar og þá kom sér vel að hafa lært þýsku. Finnsku
þýðinguna náði ég ekki í, hún kom út 1907 og er ófáanleg. um þýðingar á
skandinavísku málin veit ég ekkert. Ensku þýðingarnar eru ærið misjafnar
en misjöfnust er þýðing Rawlinsons frá Viktoríutímabilinu. Þegar þið farið
að lesa Heródótus rekist þið á kaflann þar sem kona hafði mök við geithafur.
Þessu sleppti Rawlinson að sjálfsögðu. Sumir muna að Heródótus spekúlerar
í kynfærum kameldýra. Þeirri málsgrein sleppir Rawlinson líka. Öllum
köflum sem fjalla um einhverjar kynsemdir sleppir Rawlinson annaðhvort
eða skautar mjög hratt í kringum þá. Þýðingin eftir Henry Cary kom líka út
á Viktoríutímanum en ekki fyrr en 1898 eða 28 árum eftir dauða þýðandans.
Hann sleppir engu. En hann lærði líka lögfræði og varð dómari, síðan varð
hann þunglyndur þegar móðir hans dó og lærði þá guðfræði, var síðan
ráðinn kapellán í Drayton í Berkshire en var rekinn af því skopskyn hans og
kímnigáfa voru ekki talin ná nokkurri átt. Hann hafði byrjað á klassískum
fræðum fertugur og nú vek ég athygli á að ég byrjaði 32 ára. Cary flutti svo
til Ástralíu og varð besti klassíkfræðingur þeirrar heimsálfu en samt ekki
sá eini. Þá var hann kominn nógu langt frá kerlingunni Viktoríu. Þýðing
Macauleys frá 1890 þykir nákvæm en dauðyflisleg. Donald Lateiner ritstýrir
endurútgáfu hennar 2004 og nefnir að það sé þýðing Macauleys sem Almasy
greifi les í bókinni eftir Mikael Ondaatje um enskan sjúkling. Það er sjálfsagt
rétt en í kvikmyndinni sýndist mér á sínum tíma að hann héldi á þýðingu
Carys. Það er samt svolítið erfitt að sjá það í myndinni. Í myndinni hoppar
Almasy greifi líka með konu en fyrirmyndin, hinn raunverulegi Almasy
greifi, elskaði einungis karlmenn. Spænski þýðandinn sem heitir ekki mjög
spænsku nafni, Balasch, leggur mikið upp úr tengslunum við Hómer eins
og ég og er mér því einstaklega hlýtt til hans. Ítalski þýðandinn heitir Sgroj,
nafni sem ég er óvanur.