Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 143
TMM 2014 · 1 143
Höfundar efnis:
Aðalsteinn Ingólfsson er listfræðingur og hefur ritað fjölda bóka um þau efni. Fyrir
síðustu jól kom út bók hans um Karólínu Lárusdóttur málara.
Anton Helgi Jónsson er ljóðskáld. Hann hlaut nýlega Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið
Horfurnar um miðja vikuna og væntanleg er ný ljóðabók frá honum.
Augusto Monterroso (1921–2003) var frá Guatemala en skrifaði flest verk sín í
Mexíkó. Árið 2013 kom út hjá Bjarti þýðing Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur á bók
hans Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur, og hlaut Kristín fyrir þá þýðingu Íslensku
þýðingaverðlaunin.
Ágúst Borgþór er rithöfundur sem sérhæft hefur sig í smásagnagerð. Árið 2010 kom
út eftir hann stutt skáldsaga, Stolnar stundir.
Erla Þórdís Jónsdóttir (1929–1987) var kennari í Reykjavík. Á síðasta ári kom út
heimildaskáldsaga dóttur hennar, Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur, Stúlka með
maga, þar sem Erla er sögumaður.
Guðrún Hannesdóttir er ljóðskáld og bókasafnsfræðingur og hefur um árabil gert
bækur fyrir börn með eigin myndskreytingum. Hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið
2007. Árið 2010 kom út ljóðabók hennar Staðir.
Hannes Lárusson er myndlistarmaður, hann var uppalinn fyrstu árin í gamla bænum
í Austur-Meðalholtum í Flóa. Síðustu áratugina hefur Hannes lagt sig eftir sértækri
verkmenningu og fagurfræði íslenskra torfbæja.
Helgi Björnsson hefur starfað lengi sem jöklafræðingur við Háskóla Íslands. Árið
2009 kom út verk hans Jöklar á Íslandi og hlaut hann fyrir það Íslensku bók-
menntaverðlaunin.
Herberto Padilla (1923–2000). Kúbanskt ljóðskáld og stuðningsmaður kúbönsku
byltingarinnar en var fangelsaður árið 1971 og fór í útlegð árið 1980.
Jón Óskar Sólnes var fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu og starfaði við friðargæslu,
meðal annars í Sri Lanka og ritaði um þá reynslu bókina Powderkeg in Paradise.
Hann hefur verið fastafulltrúi Samtaka atvinnulífsins hjá BuSINESSEuROPE í
Brüssel undanfarin ár en rekur nú ráðgjafarfyrirtækið Hagvit.
Kristian Guttesen er ljóðskáld og háskólanemi. Hann hefur verið ötull að birta ljóð
í tímaritum og bókum og seinasta ljóðabók hans kom út árið 2012, Vegurinn um
Dimmuheiði.
Kristín Guðrún Jónsdóttir er aðjúnkt í Spænsku við HÍ. Hún hlaut Íslensku þýðinga-
verðlaunin árið 2013 fyrir þýðingu sína á Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir
Augusto Monterroso.
Ólafur Gunnarsson er rithöfundur. Seinasta bók hans var skáldsagan Málarinn sem
kom út árið 2012.
Ólafur Þ. Harðarson er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson er bókmenntafræðingur og íslenskukennari, búsettur
í Þýskalandi.
Páll Valsson er bókmenntafræðingur, rithöfundur og ritstjóri Skírnis. Hann hefur
fengist mikið við 19. aldar fræði, meðal annars skrifað ævisögu Jónasar Hallgríms-
sonar og ritstýrt ritsafni hans.
Seamus Heany (1939–2013). Var eitt helsta skáld Íra á sinni tíð og hlaut meðal annars
Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1995. Hann kom til Íslands árið 2004 á Listahátíð
og flutti ljóð sín.
Sigurður Ingólfsson er skáld og heimspekingur sem fengist hefur jöfnum höndum við
kennslu og ritstörf. Nýlega kom út eftir hann ljóðabókin Ég þakka.