Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 25
Í s l e n s k i b æ r i n n
TMM 2014 · 1 25
stóð að tekið var upp á því að breyta þessu baðstofubyrgi í miðlægt alrými.
Nærtækara hefði til að mynda verið að umbyggja stofur, skála eða jafnvel
eldhús í sama tilgangi. Heppileg staðsetning baðstofunnar að húsabaki með
tilliti til varmabúskapar er varla afgerandi. Það er vandséð af hverju stað-
setning húss í norðurenda bæjartorfunnar eins og algengt er á Norðurlandi
ætti að leiða til betri varðveislu hita. Hiti sem leitaði upp í baðstofurýmið
ætti þá helst að berast frá eldhúsi, sem í flestum tilfellum er í veleinangraðri
útbyggingu og um löng göng að fara. Athyglisvert er að langmesta hefð fyrir
byggingu fjósbaðstofa, þar sem heimilisfólk nýtir sér hita frá kúm í fjósi undir
baðstofugólfinu, er í Skaftafellssýslum á Suðurlandi, hlýjasta hluta landsins.
Í lok 18. aldar birtist ritgerð séra Guðlaugs Sveinssonar í Vatnsfirði, „um
húsa- eða bæjarbyggingar á Íslandi“, Lærdómslistaritin, 1791, um þróun
torfbæjarins. Með ritsmíð Guðlaugs birtast þrjár tillögur að því sem hann
kallar nýja húsaskipan. Róttækasta myndin sýnir þriggja bursta bæ þar
sem gert er ráð fyrir að baðstofan sé í einni þessara frambursta. Hörður
Ágústs son taldi þessa ritgerð hafa leitt til „byltingar“ í húsagerð á landinu,
þá sérstaklega í yfirbragði og skipan húsa á Suðurlandi. (Ísl. þjóðmenning I
bls. 281, 289–93) Hörður gerir sennilega of mikið úr áhrifum Guðlaugs og
færir fyrir því ófullnægjandi skýringar af hverju áhrifa hans gætti lítið sem
ekkert á Norðurlandi og „byltingin“ „fór einungis „hálfa leið““ á Austur- og
Vesturlandi. Þessar breytingar, sem miðuðust einkum við meiri reglufestu
á þilstöfnum og staðsetningu á baðstofu fremst í húsaröðinni, virðast hafa
verið hafnar mun fyrr, og frekari þróun sennilega haldið áfram án afgerandi
áhrifa frá hugmyndum Guðlaugs.11 Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna
Pálssonar (1772) er til að mynda þessi almenna athugasemd um húsagerð:
„Húsin standa í laglegri röð. Þau eru græn og grasi vaxin að utan, rétt eins
og um lystihús væri að ræða. Framhliðarnar eru hvítar eða rauðmálaðar
með hveraleir“. (bls. 15) um hús í Skaftafellssýslu segir: „Húsum er fagurlega
skipað á bæjum […] Bæirnir eru áfastir, og standa húsin öll í einni röð.“ (bls.
131) Ekki er ólíklegt að sjálft aðalíveruhúsið, baðstofan hafi verið í einu af
þessum húsum eins og löngum hefur verið í mörgum landshlutum. Í bókinni
er jafnframt birt mynd af þriggja bursta bæ sem sagður er meðalbær.
Ekki er loku fyrir það skotið að á útvöldum prestsetrum megi greina
alvarlegar tilraunir til aukinnar reglufestu í húsaskipan og yfirbragði, þó
þilstafnar og gaflar hafi jafnóðum hlaupist undan merkjum í innbyrðis
óreglu og þar með tryggð haldið við arfinn í yfirbragði, anda og efniskennd.
Það er sama hvar páli er stungið niður í heimildavöll íslenska torfbæjarins,
hvarvetna blasir við óregla, margbreytileiki á grunni afar lífseigs og íhalds-
sams arfs. Það er einmitt fágunin í stöðnuninni og samræmið í margbreyti-
leikanum sem er einkenni þessa arfs í heild sinni. Það er í fjölbreytileikanum
sem styrkur hans birtist. Þess vegna engir tveir bæir eins og sjaldnast tvo hús
eins í hverju bæjarþorpi.
Á þeim stöðum þar sem gufubaðstofur voru ekki á bæjum, enda afar hæpið