Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 83
Vi ð l e g s t e i n ö m m u m i n n a r o g a fa
TMM 2014 · 1 83
lagi fyrir tilstuðlan matseldar hennar, að hún bjó yfir slíkum eiginleikum.
Allur matur sem hún gerði eitthvað úr skildi eftir sig vellíðan.
Einhvern veginn skynjaði ég þá væntumþykju sem hún hefði getað veitt
sínum nánustu ef hlið veggjarins hefðu opnast við og við til að hleypa henni
í gegn. Þetta þykist ég alltént sjá eða skynja núna.
Maður þarf ekki að elda kryddlegin hjörtu til að segja: Mér þykir vænt um
þig.
Ég veit ekki hvort amma mín var búin að venjast því að vera án afa míns
þegar ég fæddist. Hún hafði fengið tíma til að venjast tilhugsuninni. Afi
veiktist nefnilega af illvígum sjúkdómi sem lét hann veslast upp smám
saman ár eftir ár uns lítið sem ekkert varð eftir af honum nema stjörnur
í augum þegar hann horfði á ömmu mína. Ímynda ég mér. Svo slokknaði
á stjörnunum og bið afa og einsemd ömmu hófst. Gæti ég sagt að þessi
sjúkdómur hafi verið ógeðslegur, andstyggilegur, ófétislegur, viðbjóðslegur,
viðurstyggilegur ef amma mín hefði ekki svo oft sagt við mig: Óli minn,
enginn getur að sinni tilveru gert.
Sjúkdómur þessi væri læknanlegur nú til dags.
Ef ég á að vera hreinskilinn veit ég ekki hvort ég get sagt að amma mín hafi
verið góð manneskja í lifanda lífi. Reyndar veit ég ekki heldur samkvæmt
hvaða mælikvörðum ég hef mótað mér þann skilning. Engu að síður er ég
á því að hún hafi ævinlega viljað vel. Ekki var þó alltaf hægt að draga þá
ályktun af hegðun hennar, atferli og gjörðum. Það er að segja eins og það er
í minningunni ef ég ákveð að veiða fleiri en eina tegund minninga. Flestum
vildi hún allavega vel.
Hvað verður sagt um mig eftir að ég hætti að draga andann, blóðið hættir
að renna í æðum mínum og líkamanum verður holað í jörðina? Næ ég að
vinna mér inn nafngiftina: hann var góður maður?
Amma mín var gjörn á að tala um samferðafólk sitt. Sumir myndu segja að
hún hafi slúðrað. Hún neitaði því þó ávallt að búa yfir rætnum tungum eða
þá tungum tveim. Vildi hún meira að segja meina að aldrei hefði hún látið
styggðaryrði falla um nokkra manneskju. Því hélt hún oft fram skömmu eftir
að hafa tæpt á honum Árna heitnum aumingja, syni hennar Unnar í Brekku,
dóttur Jóns prófasts, þess hins sama og átti lausaleikskrógann með fóstur-
dóttur sinni og var drykkfelldur meira en góðu hófi gegnir. En Árni heitinn
sjálfur var víst, að hennar sögn, óttaleg lydda og ræfilstuska. Blessaður
karlanginn.
Svona talaði fólk í gamla daga.
Líkt og gefur að skilja var amma mín af gamla skólanum. Lítið fór fyrir
skólagöngu. Amma var af því sauðahúsi sem þekkinguna svo að segja erfði.
Hún lærði án þess að vera beinlínis kennt, kunni án þess að læra og vissi án
þess að glugga í bækur. Þó var hún ekki á þeirri sígildu skoðun að sjaldan
verði bókvitið í askana látið.