Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 93
H e r ó d ó t u s i f y l g t ú r h l a ð i
TMM 2014 · 1 93
Jóna, 6. um ósigur Jóna og orrustuna við Maraþon, 7. um herför Xerxess og
orrustuna í Laugaskörðum, 8. um sjógutl við Artemisíum og vendipunkt
stríðsins, orrustuna við Salamis, og 9. um ósigur Persa og bardaga við Plateu
og Mýkölu. Bókin er ósegjanlega full af sögum og ævintýrum, tilvitnunum
og ívitnunum. Hvað er athugavert við dindilinn á arabísku sauðfé? Hver var
drepinn þegar hann heimtaði að tala við konung meðan konungur samrekkti
konu? Hvers konar sandrok gróf heilu herdeildirnar? Af hverju voru fagrar
og frægar konur ekki smurðar strax eftir andlátið hjá Egyptum? Hvernig
tengjast Forngrikkir fyrstu handverkssýningunni á Hrafnagili 1992? Af
hverju var augnlæknirinn í fýlu við konunginn? Hverjar voru launhelgarnar?
Af hverju stýrði kona persnesku herskipi? Hvernig er sæði Indverja á litinn?
Hver var uppáhaldsaftökuaðferð Persa? Hverjir sigldu kringum Afríku?
Hvernig var nauðgaranum refsað? Og svo framvegis.
Ég hef hugsað mér að ljúka þessum pistli með uppáhaldskafla mínum úr
Heródótusi. Það er síðasti kafli 8. bókar. Ég held að hann kristalli ágætlega
þær sálarinnar teygjur sem átökin við Persa voru og þá í leiðinni hvers vegna
Evrópa er í dag ekki kálfur út úr Persíu. Ekki er víst að Rómaveldi hefði orðið
til eins og við kynntumst því ef Persar hefðu sigrað. Kannski hefði Heimir
bróðir þá fengið 9,9 í persnesku á stúdentsprófi í MA en ekki latínu. En þegar
hér er komið sögu í kaflanum eru þrjár af sex stórorrustum búnar. Hellenar
höfðu sigrað við Maraþon tíu árum fyrr. Persakonungur hafði nú dregið yfir
þá að því er virtist óvígan her og flota en var í þann veginn að falla á sjálfs
síns bragði: Hann kom allt of fjölmennur með óþjálfað lið og ósynda menn
og allt fór í graut. Þeir unnu að vísu hina 300 í Laugaskörðum með svikum
og gerðu patt við Artemisíum en eru nú búnir að tapa við Salamis, 100 km2
eyju á Saronsflóa úti fyrir Aþenu. Xerxes hefur brennt Aþenu og þar með
hof öll og blóthús. En þótt hann sé farinn heimleiðis hefur hann skilið eftir
300.000 manna úrvalsher í Böyótíu. Eða Þessalíu, ég man það ekki alveg.
Spartverjar hafa boðist til að útvista konur, börn og búsmala fyrir Aþeninga
þar sem borgin er í rúst en þetta fólk dvelur um þessar mundir á Salamis.
Samt óttast þeir það mest að Aþeningar muni sættast við úrvalsher Persa
og saman herji þeir á Lakverjaland og höfuðborg þess, Spörtu. Þeir gera því
út sendimenn með mikilli panik að tala um fyrir Aþeningum. Hittast þeir
allir á einum fundi, sendimenn Spartverja, Aþeningar og Alexander, for-
faðir Alexanders mikla, sendiboði frá Persum, sem flytur allt þeirra skrum
og gylliboð. Spartverjar eru oft kallaðir Lakverjar og Persar útlendingar sem
þýðing á barbaroi en stundum Medar eftir forverum sínum, herraþjóð í Asíu.
Þegar lokakafli 8. bókar hefst hafa Aþeningar veitt Persum algjört afsvar og
sagt þeim að snauta heim. Þetta er sá kafli sem hvað oftast hefur komið út
klökkvanum hjá mér en þó sjaldan á þriðja glasi.
Þannig svöruðu þeir Alexandri en við sendimenn frá Spörtu sögðu þeir
þetta: „Að þið Lakverjar skylduð óttast að við slægjum í sætt við útlendinga
var ákaflega mannlegt. En það er þó skömminni líkast að þið sem þekkið