Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 37
S e n d u r m e ð s v i p u
TMM 2014 · 1 37
Það var eyðilegt á heiðinni og hálfgerður beygur í mér. Hver vissi nema
huldufólk, útilegumenn eða jafnvel tröll yrðu á vegi mínum?
Mér létti í skapi þegar ég sá mann á gangi spölkorn fram undan. Ég sló
í klárinn. Forynjur gleymdust fyrst ég var svo heppinn að hitta mannlega
veru. Þegar ég nálgaðist manninn, sem var að æja við læk, sá ég að hann var
klæddur gauðrifnum görmum og bar poka á bognu baki. Þetta hlaut að vera
eitthvert förumannstetur, en ekki kannaðist ég við baksvipinn. Þó var ekki
útilokað að ég bæri kennsl á hann þegar ég sæi framan í hann.
– Sæll veri hann! kallaði ég.
Hann leit við og tók glaðlega undir kveðju mína, en það veit hamingjan
að hvorki fyrr né síðar á minni löngu ævi hefur mér orðið jafn hverft við.
Hvílíkt andlit! Vinstri vanginn var skjallhvítur, en sá hægri himinblár! Ég
varð skelfingu lostinn og sló rösklega í klárinn. En Rauður gamli hlýddi ekki
skipun minni, hann virtist hreint ekki hafa veitt því athygli hvílík ófreskja
hafði orðið á vegi okkar.
– Finnst þér ég skrítinn? sagði karlinn og hló, svo að skein í brennda tann-
stubbana. – Blessaður vertu, þú þarft ekki að vera hræddur við hann mig, ég
geri ekki flugu mein. Hana, viltu ekki þetta í munninn?
Hann rétti mér kandísmola og hrognaköku sem hann tíndi upp úr poka
sínum. Ég bar hvort tveggja upp að nefi mínu, en fann enga annarlega lykt.
Þessi óvænti glaðningur dró talsvert úr ótta mínum og tortryggni. Þó hafði
ég enga lyst á hrognakökunni, stakk henni bara í vasann. En kandísmoli hafði
oft reynst mér allra meina bót og líka í þetta sinn. Ég fékk kjark til að spyrja:
– Hvers vegna ertu svona í framan?
– Þú spyrð hvers vegna. Hvers vegna eru ekki allir eins? Hann hristist allur
af hlátri. – Engir tveir eins, engum til meins.
Mig hryllti við þessum tryllingslegu gleðilátum. Hvað gat komið honum
til að láta spurningu minni ósvarað? Hann er meira en lítið dularfullur. Ég
þykist næstum viss um að hann sé göldróttur. Bjálfinn sem ég var að kyngja
kandísmolanum, ég svitna við tilhugsunina um að hann sé eitraður. Ég tek
hrognakökuna upp úr vasanum og þeyti henni niður í moldarflag.
– Dálagleg meðferð á mat, segir hann hastur. – Þú ættir skilið að svelta!
Hann hvessir á mig augun, grá, blóðhlaupin og þrútin. Þau stinga
undarlega í stúf við andlitið. Óttasleginn hef ég svipugarminn minn á loft
til að knýja áfram reiðskjótann minn lata, sem hafði drukkið nægju sína
og fengið sér tuggu. En karlinn hafði gripið traustataki í beislið svo að ég
fékk hann ekki hrært. Frávita af hræðslu og reiði lamdi ég klárinn og barði
fótastokkinn. Rauður rykkti til hausnum en tókst ekki að losa sig úr heljar-
greipum karlsins.
– Svona, svona, veriði rólegir, látiði ekki svona, segir hann blíðurómi.
Hann klappar Rauð á snoppuna og stingur upp í hann brauðmola. Mér til
mikils angurs mat skepnan meir blíðuhót flakkarans en mín húsbóndalegu
svipuhögg og hott hott.