Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Blaðsíða 76
A u g u s t o M o n t e r r o s o
76 TMM 2014 · 1
Þetta var upphaf endalokanna.
Göngustígarnir eyðilögðust smám saman. Einstaka konu sást þar bregða
fyrir endrum og eins, eða verðlaunaskáldi með bók sína undir arminum.
Báðir stígarnir urðu illgresi og þyrnum aftur að bráð og dömur með sitt
fínlega göngulag áttu bágt með að fóta sig. Reiðhjólum fækkaði rétt eins og
höfðunum og kumpánlegar bjartsýniskveðjur hurfu nánast með öllu.
Líkkistusmiðurinn hafði aldrei verið jafn niðurdreginn og jarðarfarar-
legur að sjá og nú. Og öllum fannst þeir muna eftir gömlum draumi, einum
af þessum unaðslegu draumum þegar maður finnur poka fullan af gull-
peningum og setur hann undir koddann og fer aftur að sofa, en þegar maður
vaknar svo um morguninn grípur maður í tómt þegar á að endurheimta
hann.
Þrátt fyrir allt héldu viðskiptin áfram, með herkjum þó. En fólk átti erfitt
með að festa svefn og óttaðist að verða útflutningi að bráð þegar það vaknaði.
Í heimalandi Mr. Taylors jókst eftirspurnin að sjálfsögðu með hverjum
deginum. Daglega komu fram nýjar uppfinningar, en innst inni hafði enginn
trú á þeim og allir kröfðust litlu höfðanna frá Rómönsku Ameríku.
Það styttist óðum í síðasta áfallið. Mr. Rolston bað örvæntingarfullur um
fleiri og fleiri höfuð. Jafnvel þótt birgðir fyrirtækisins snarminnkuðu var
Mr. Rolston sannfærður um að systursonur hans gerði allt sem í hans valdi
stæði til að bjarga honum úr klípunni.
Sendingarnar, sem áður voru daglegar, strjáluðust niður í eina á mánuði
og hvaðeina var sent: höfuð af börnum, konum, þingmönnum.
Skyndilega hætti allt saman.
Einn dimman og drungalegan föstudag kom Mr. Rolston heim úr kaup-
höllinni og var ennþá miður sín vegna upphrópana og átakanlegrar hegð-
unar vina sinna sem voru gjörsamlega ráðalausir. Þegar hann opnaði pakka
sem beið hans, ákvað hann að stökkva út um gluggann (í stað þess að nota
skammbyssu sem hefði valdið hávaða og hryllingi), því við honum blasti
smátt höfuð Mr. Taylors, sem brosti úr fjarlægð, frá hinu villta Amasón-
svæði, eins og barn með falskt bros á vör, og virtist segja: „Fyrirgefðu, ég skal
aldrei gera þetta aftur.“